4166 VW Touran innkallaðir í Danmörku
20.06.2005
Eftir því sem umfang allskonar rafbúnaðar eykst í bílum eykst að sama skapi hætta á bilunum og jafnvel sjálfsíkveikju í bílum. Hér á FÍB vefnum var nýlega sagt frá sjálfsíkveikju og bruna í Peugeot en sú tegund er alls ekkert einsdæmi í þessu tilliti.
Nú hefur Volkswagen í Danmörku innkallað 4.166 VW Touran bíla. Ástæða innköllunarinnar er að kviknað hefur í bílum af þeirri gerð út frá leka í rafknúnum eldsneytisdælum. Frá þessu er greint á heimasíðu FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.