480 „þríhjól“ frá Morgan

Sportbílasmiðjan Morgan í Bretlandi sem stofnuð var árið 1910 er enn í eigu fjölskyldu stofnandans og núverandi forstjóri er barnabarn hans. Sá heitir Charles Morgan og hann er hvergi banginn við framtíðina og boðar eina nýja bílgerð á ári héðan í frá. Til að það takist mega menn halda vel á spöðum því að Morgan er ekki stórt bílaframleiðslufyrirtæki. Þar starfa einungis 190 manns sem handbyggja hvern bíl.

http://www.fib.is/myndir/Morgan_3-Wheeler_2011.jpg
Morgan Three-Wheeler árgerð 2011. Mótorinn er sá sami
og er í Harley Davidson mótorhjólum, gírkassinn er fimm
gíra og er frá Mazda. Þyngdin er um hálft tonn, viðbragð
úr kyrrstöðu í hundraðið er undir sex sekúndum og há-
markshraðinn er tæplega 200 km á klst.

Á bílasýningunni í Genf sl. vetur vakti þriggja hjóla, tveggja manna sportbíll frá Morgan mikla athygli. Síðan þá hafa verið byggð og seld samtals 480 eintök þessa farartækis. Þessi Morgan Three-Wheeler er ekki ósvipaður sambærilegum farartækjum sem Morgan byggði á árunum 1911-1952. Þriggja hjóla bíllinn nýi er einn eftirsóttasti bíllinn frá Morgan þetta árið því að ársframleiðslan í heild er nefnilega ekkert stórvægileg: Á síðasta ári seldi Morgan samtals 740 bíla og áætlar að selja þúsund bíla á þessu ári.

Vinnubrögðin við bílasmíðina hjá Morgan eru svipuð og þau alla tíð hafa verið og burðarvirki sumra gerðanna er þannig ennþá úr tré. Framleiðslan hefur alla tíð verið opnir sportbílar, flestir tveggja manna en ein og ein gerð fjögurra manna opinna sportbíla hefur slæðst með af og til.

Í samtali við breska tímaritið Autocar segir Charles Morgan að eftirspurnin eftir Three-Wheeler bílnum sé að mestu í ríkjum utan Bretlands. Verðið, um 6,3 milljónir ísl. kr. við verksmiðjudyr, vefjist lítið fyrir kaupendum. Aðrar gerðir Morgan bíla eru flestallar mun dýrari og fyrsta nýja gerðin sem boðuð er á næsta ári verður fjögurra sæta bíll og verður væntanlega talsvert dýrari en þriggja hjóla bíllinn.