50 ár frá því skipt var í hægri umferð á Íslandi
Í dag, 26. maí, eru liðin 50 ár frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi. Það var að morgni 26. maí árið 1968 sem skipt var yfir í hægri umferð og að baki lá mikill undirbúningur og þrotlaus vinna margra aðila.
Forsagan er sú að Alþingi ályktaði svohljóðandi þann 13. maí 1964: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi.“
Umferðarnefnd var falið að sjá um undirbúninginn. Heildarkostnaður nam rúmlega 33 milljónum króna vegna strætisvagna og 12 milljónum króna vegna umferðarmannvirkja. 1662 skiltum um allt land var skipt út aðfararnóttina sjálfa og höfðu þá alls 5727 skilti verið færð til. Eina slysið vegna breytinganna þann dag var drengur á hjóli sem fótbrotnaði.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofa mun bjóða til stuttrar athafnar 31. maí næstkomandi í tilefni af því að liðin 50 ár frá því að hægri umferð var tekin upp á Íslandi.
Athöfnin fer fram kl. 10-10.30 fyrir framan Skúlagötu 4 (Sjávarútvegshúsið) en það var einmitt þar sem fyrst var ekið, með formlegum hætti, af vinstri akrein yfir á þá hægri snemma að morgni 26. maí 1968, á H-deginum svokallaða. Með miklu og samhentu átaki í aðdraganda þessarar breytingar var lagður grunnur að vitund Íslendinga um ábyrgð sína í umferðaröryggismálum og mikilvægi forvarna og fræðslu.
Lokað verður fyrir almenna umferð við Skúlagötu 4 meðan á athöfninni stendur. Ávörp flytja þeir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu. Valgarð Briem, sem var formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar, mun aka með sama hætti og á sama bíl og hann gerði fyrir 50 árum. Í kjölfarið ekur nýútskrifaður bílstjóri á sjálfkeyrandi bifreið og fleiri ökutæki fylgja á eftir til að minnast tímamótanna.