50 milljón samrásarkerfi frá Bosch
Í síðasta mánuði hafði Bosch framleitt 50 milljón samrásarinnsprautunarkerfi (Common Rail) fyrir dísilvélar frá því að framleiðslan hófst árið 1997.
Samrásarkerfin, eða Common-Rail tæknin hefur gerbreytt dísilvélum, ekki síst fólksbíladísilvélum. Með tilkomu þeirra breyttust dísilvélar frá því að vera hávaðasamar, svifaseinar og reykspúandi í umhverfismildar, aflmiklar og hljóðlátar en jafnframt mjög sparneytnar fólksbílavélar. Eftir því sem tæknin hefur orðið þróaðri hefur orkunýtnin batnað og gangurinn mýkst meir og meir. „Frá því að fyrsta lagasetning um útblástur tók gildi í Evrópu árið 1990 hefur okkur tekist að minnka eyðsluna um 30% og útblástur skaðlegra efnasambanda um 95%, segir Dr. Ulrich Dohle, framkvæmdastjóri dísilkerfadeildar Bosch.
Samrásarinnsprautun eða Common Rail kerfi eru gerólík olíuverkinu sem áður var hjartað í dísilvélum. Í grófum dráttum starfar kerfið þannig að háþrýstidæla dælir dísilolíu inn í einskonar geymi, eða rör, þar sem olían er undir mjög miklum þrýstingi og margföldum á við það sem gömlu olíuverkin gáfu. Úr þessum geymi liggja grönn olíurör að hverju brunahólfi vélarinnar og á hárréttu augnabliki miðað við ganghraða og álag vélarinnar opna rafeindastýrðir lokar fyrir olíuna sem sprautast inn í brunahólfin og saman við samanþjappað loftið sem þar er fyrir um úðara eða spíssa. Við það verður sprenging í brunahólfinu og bullan eða stimpillinn þrýstist niður og sveifarás vélarinnar snýst (aflslag).
Fyrstu bílarnir sem búnir voru samrásarinnsprautunarkerfum frá Bosch voru Alfa Romeo 156 JTD og Mercedes Benz 220 CDI. Þetta var árið 1997. Eftirspurn eftir samrásarkerfum snarjókst mjög hratt og í takti við vaxandi eftirspurn eftir dísilbílum með þessum nýju vélum. Árið 2001 voru þrjár milljónir samrásarkerfa frá Bosch í notkun en strax árið eftir voru þau orðin 10 milljónir. Á árunum 1997 til 2007 jókst hlutur dísilbíla í Evrópu úr 20 prósentum í yfir 50 prósent. Það var ekki síst eftir að menn hófu að samhæfa forþjöppur og samrásarinnsprautunarkerfin í dísilvélunum að þær slógu verulega í gegn segir Ulrich Dohle ennfremur.
Í dag er Bosch stærsti framleiðandi samrásarinnsprautunarkerfa í dísilvélar í veröldinni og Bosch kerfi eru í bílum allra helstu bílaframleiðenda í heiminum. Bosch kerfin eru í dag framleidd í 15 verksmiðjum í Evrópu, Asíu og Ameríku.