500 þúsund nýjar hleðslustöðvar fyrir árið 2030 í Bandaríkjunum
Bandarísk stjórnvöld hafa uppi áform um að fjölga rafknúnum ökutækjum til muna á næstu árum. Þau hafa átt í viðræðum við rafbílaframleiðendur um að auka framleiðslu á rafbílum og bæta þá en í staðinn verða innviðir bættir til muna. Mikilvægur þáttur í þessu er að tryggja nægt rafmagn og fjármagn til að uppbyggingin gangi hratt og vel fyrir sig.
Markmiðið er að reistar verði 500 þúsund nýjar hleðslustöðvar í Bandaríkjunum fyrir árið 2030. Baráttan við loftslagsbreytingar er mikið áherslumál stjórnarinnar sem tók við völdum í upphafi ársins. Stefnt er að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Bandarísk stjórnvöld hafa á stefnuskrá sinni að ökutæki í eigu alríkistjórnarinnar verði jafnt og þétt skipt út fyrir rafknúnar bifreiðar. Vinna er í gangi í þinginu við gerð nýrra laga til að hækka þakið á skattaaflætti fyrir rafknúin ökutækja. Öllum má vera ljóst að framundan er mikil vinna svo að þessi áform gangi eftir.
Bandarískir bílaframleiðendur hafa gefið út að á næstu árum ætli þeir að beina sjónum sínum enn frekar að framleiðslu á rafknúnum ökutækjum. General Motors hefur þegar tilkynnt að fyrirtækið verði alfarið búið að skipta yfir í rafknúin ökutæki fyrir 2035.
Ford ætlar að tvöfalda fjárfestingu sína í allri sinni uppbyggingu í framleiðslu á rafbílum. Þrátt fyrir greinilegan áhuga fyrir rafknúnum bílum eru þeir enn sem komið er tiltölulega fáir á bandarískum vegum í samanburði við aðrar þjóðir.
Árið 2019 voru rafknúin ökutæki í Bandaríkjunum rúmlega 2% af bílaflota landsins og hefur þeim farið hægt fjölgandi. Gríðarleg vinna blasir við og margir halda því fram að stórveldið í vestri hafi sofið á verðinum í þessum efnum.