53,8% vilja ekki nagladekkjaskatt

http://www.fib.is/myndir/Motinskatti.jpg
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Leiðar ehf, www.leid.is sem er svohljóðandi: „Dagana 21. til 30. janúar sl. kannaði Gallup að beiðni Leiðar ehf. viðhorf landsmanna til gjaldtöku af nagladekkjum á höfuðborgarsvæðinu. Alls 8oo manns eða 60,6% úr 1.350 manna úrtaki svöruðu. Spurt var hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert því að bifreiðaeigendur greiði sérstakt gjald fyrir notkun nagladekkja innan höfuðborgarsvæðisins vegna þess aukna slits á götum sem rekja má til nagladekkja?

Þegar allir eru taldir voru niðurstöðurnar þær að 53,8% voru frekar eða mjög andvíg, frekar eða mjög hlynnt voru 38,6% og 7,6% voru hvorki hlynnt né andvíg.

Sams konar könnun var gerð fyrir Leið ehf. af Félagsvísindastofnun í desember 2003. Heldur hefur dregið úr andstöðun við gjaldtökuna síðan þá, þegar 60,2 % voru andvíg. Urðu niðurstöðurnar nú sem hér segir :
janúar 2006 desember 2003
Mjög andvígur 36,0 % 40,0 %
Frekar andvígur 17,9 % 20,2 %
Hvorki né 7,6 % 6,8 %
Frekar hlynntur 20,5% 15,1 %
Mjög hlynntur 18,1 % 17,8 %

Það skal tekið fram að könnun var gerð í lok janúar þegar talsvert fannfergi var um mestan hluta landsins og hálka og ísing á vegum. Verður að telja líklegt að niðurstöðurnar myndu breytast ef spurt væri á öðrum árstíma eða við hagstæðari veðurskilyrði, en ekki er ólíklegt að svo verði gert.
Einnig er ljóst að nokkuð hefur dregið úr andstöðunni síðustu tvö árin.

Í könnuninni var þeim sem spurðir voru skipt í nokkra flokka. Þ.e. eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og tekjum.
Athygli vekur að í öllum flokkum er meirihluti andvígur gjaldtöku nema þeir sem búa í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur þar sem rúm 60% voru frekar eða mjög hlynnt gjaldtöku svo og voru íbúar austurbæjar vestan Elliðaáa frekar eða mjög hlynntir gjaldtöku eða um 52%. Mest andstaðan á höfuðborgarsvæðinu var í Kópavogi þar sem 60% voru andvíg gjaldtöku. Litlu færri voru andvígir í Árbæ og Grafarvogi svo og Breiðholti. Sýnist því búseta á höfuðborgarsvæðinu skipta mönnum í tvo flokka eftir afstöðu til gjaldtöku af nagladekkjum, þ.e. annars vegar Reykjavík vestan Elliðaáa og hins vegar aðrir hlutir höfuðborgarsvæðisins.“

Einkahlutafélagið Leið ehf. Var stofnað 1. Desember 2001. Tilgangur þess er að beita sér fyrir framþróun í samgöngum á landi með því m.a. að annast fjármögnun og eftir atvikum gerð og rekstur vega og annarra samgöngumannvirkja (einkafjármögnun). Stjórnarformaður Leiðar ehf er
Jónas Guðmundsson, sýslumaður í Bolungarvík.