548 bílar á sólarhring um Héðinsfjarðargöng 2011
Meðalumferð um Héðinsfjarðargöng árið 2011 var 548 bílar á sólarhring (ÁDU). Það er talsvert meiri umferð en spár Vegagerðarinnar höfðu gert ráð fyrir áður en framkvæmdir hófust. Þá hljómaði spáin upp á um 350 bíla og í mesta lagi 500. Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Héðinsfjarðargöngin tengja saman kaupstaðina Siglufjörð og Ólafsfjörð sem nú með tilkomu ganganna, tilheyra einu og sama sveitarfélaginu. Áður en göngin voru boruð er tæpast hægt að segja að kaupstaðirnir hafi verið í vegasambandi hvor við annan. Sú umferðarspá sem gerð var áður en ráðist var í að bora göngin þegar ekkert fordæmi um umferð milli staðanna lá fyrir, getur því vart hafa verið auðvelt viðfangsefni. Frávik raunverulegrar umferðar í fyrra samanborið við svartsýnustu og bjartsýnustu spár Vegagerðarmanna hefur reynst vera þannig að umferðin varð 10-57 prósent meiri en þessar spár höfðu bent til.
Um Óshlíðargöngin, sem einhverra hluta vegna eru jafnan nefnd Bolungarvíkurgöng gegnir hins vegar öðru máli. Áður en þau voru boruð var vegarsamband milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur um mjög varasaman veg utan í Óshlíðinni og þannig auðveldara spá fyrir umferðarþunga um nýju veggöngin samanborið við umferðina um Óshlíðarveg áður.
En nú liggja fyrir niðurstöður úr teljurum Vegagerðarinnar á umferðinni um Óshlíðarveg í hitteðfyrra og um Óshlíðargöngin í fyrra. Þær sýna að umferðin jókst um 3 prósent með tilkomu ganganna. Í hitteðfyrra, 2010, fóru 776 bílar um Óshlíðarveg að meðaltali á sólarhring (ÁDU) en árið eftir fóru um Óshlíðar göng 797 bílar að meðaltali á sólarhring. Umferðin jókst þannig um 3 prósent með tilkomu ganganna. Spár höfðu hins vegar bent til að umferðin um göngin yrði meiri á þessu fyrsta ári þeirra, eða 810 ÁDU.
Sjá nánar í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar.