55% landsmanna á móti fyrirhuguðum gjaldtökum í jarðgöngum
Meirihluti landsmanna er á móti fyrirhugaðri gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Samkvæmt könnun Maskínu eru 55 prósent landsmanna andvíg gjaldtöku, en ríflega 20 prósent hlynnt henni. Svipað margir segjast í meðalagi hlynntir eða andvígir. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí og voru svarendur 1.069 talsins.
Um 72 prósent þeirra sem búa á Austurlandi eru andvíg
Fyrr í sumar boðaði innviðaráðherra frumvarp um gjaldtökuna til að standa undir kostnaði við Fjarðarheiðargöng og önnur göng í framtíðinni. Samkvæmt könnun Maskínu er andstaðan mest á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða um 75 prósent. Um 72 prósent þeirra sem búa á Austurlandi eru andvíg henni en um sextíu prósent íbúa á Norðurlandi. Um helmingur þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Reykjanesi eru á móti gjaldtöku.
Talsverðan breytileika er að sjá á viðhorfi fólks eftir stjórnmálaskoðun þess. Kjósendur Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins eru andvígari gjaldtökunni en kjósendur annarra flokka. Best mælist gjaldtakan fyrir meðal kjósenda Viðreisnar þar sem hátt í 40% segjast hlynnt, auk kjósenda Vinstri grænna og Samfylkingarinnar en meðal þeirra eru 32% hlynnt.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.069, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega.
FÍB er alfarið á móti því að vegamannvirki verði fjármögnuð með vegtollum.
FÍB ítrekar fyrri ábendingar um vegtolla, mikilvægi öruggra vega og ríflegar tekjur ríkissjóðs af bílum og umferð. FÍB er alfarið á móti því að vegamannvirki verði fjármögnuð með vegtollum.
Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Raunsætt er að áætla 15% fari í kostnað við innheimtu vegtolla þar sem umferð er mikil og 60-80% þar sem umferð er lítil.
Vegtollar eru mun kostnaðarsamari en aðrar innheimtuaðferðir stjórnvalda af bílum og umferð. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri.
Skyndileg áform um vegtolla fela í sér lýðræðishalla. Kjósendur hafa ekki fengið tækifæri til að taka afstöðu til slíkra hugmynda í kosningum.