56% vilja ekki banna negld vetrardekk
56 prósent þeirra sem svöruðu síðustu spurningu á FÍB vefnum vilja ekki að bannað verði að aka á negldum vetrardekkjum á Íslandi. Rúmlega 17 prósent eru því fylgjandi að banna negldu dekkin alfarið og tæp 27 prósent vilja banna þau á tilteknum svæðum.
Spurningin var þessi: Ætti að banna negld vetrardekk? Já svöruðu 17,2 prósent, já, á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi sögðu 26,8 prósent og nei svöruðu 56,1 prósent.
Nú hefur verið sett ný spurning inn á heimasiðu FÍB; www.fib.is og er hún um mikið hagsmunamál alls samfélagsins um þessar mundir og sett fram til að kanna vilja almennings um það. Spurningin er eftirfarandi:
Helmingur útsöluverðs á eldsneyti eru skattar í ríkissjóð. Eldsneytisverð hækkar stöðugt á heimsmarkaði og gengi krónunnar veikist. Telur þú að ríkið ætti að koma til móts við almenning og atvinnuvegina í landinu með því að lækka eldsneytisskattana?
Félagsmenn FÍB og landsmenn allir eru hvattir til að svara spurningunni. Spurningin verður á heimasíðu FÍB fram yfir páskana og niðurstöður birtar í FÍB fréttum á vefnum og í fjölmiðlum eftir páska.