611 kílómetra á einum bensínlítra
Lið háskólanema við Danmarks Tekniske Universitet sigraði í hinni árlegu keppni Shell Eco-Marathon sem fram fór í Rotterdam í 28. sinn í síðustu viku. Keppnin snýst um tækni sem gerir mögulegt að komast farartæki sem allra lengst á orkumagni sem jafngildir einum bensínlítra. DTU liðið sigraði og setti jafnframt nýtt heimsmet með því að komast á farartæki sínu 611 kílómetra á lítranum. Eldsneytið var etanól. Nemendur frá háskólanum í Luleå í Svíþjóð varð í öðru sæti og annað danskt lið - frá háskólanum í Álaborg - varð í fjórða sæti á vetnisknúnu farartæki sínu.
Nemarnir frá DTU sigruðu reyndar líka í fyrra en þá komst bíllinn þeirra 509 kílómetra á ígildi eins lítra af bensíni. Bíllinn sem sigurliðið tefldi fram til keppni í ár er talsvert endurbættur frá sigurbíl síðasta árs en jafnframt var keppnisbrautin í ár mun erfiðari. Hún var 16 km löng með mörgum og kröppum beygjum, grófu malbiki og að hluta til um almennar samgönguleiðir með þéttri umferð. Árangurinn í ár er því enn eftirtektarverðari en í fyrra.
Í Shell Eco-Marathon keppninni er keppt í nokkrum flokkum en farartækin í aðalflokknum skulu líkjast hefðbundnum bílum og m.a. vera með rúðuþurrku á framrúðunni og með miðstöð sem eyðir móðu af henni innanverðri. Þá skal ökumaður geta komist inn í bílinn og út úr honum af eigin rammleik. Þá skal meðalhraði bílanna í keppninni ekki vera lægri en 25 km á klst.