65 fornbílar fara hringinn

http://www.fib.is/myndir/Bentley.jpg
Þessi Bentley er einn bílanna sem verða á hringveginum 7.-12. sept. nk.

Dagana 7. til 12. sept. verða á ferð um landið kringum 65 fornbílar á vegum bresks akstursíþróttaklúbbs HERO (hero.org.uk)  Þeir munu aka umhverfis landið, rangsælis, þessa daga, þó fyrsti dagurinn verði hinn hefðbundni Þingvellir, Geysir, Gullfoss. 

Þetta er sambland af góðakstri og ökuleikni.  Með góðakstri er átt við að ekin sé ákveðin leið á fyrirfram ákveðnum meðalhraða.  Síðan eru tímavarðstöðvar einhvers staðar inná leiðunum þar sem mælt er hve langt utan tímamarka á þeim stað viðkomandi er.  Svo er það ökuleikni, sem er í raun akstur kringum hindranir t.d. keilur sé annað ekki fyrir hendi.

Bílarnir sem þátt taka í þessu eru frá árunum 1922 til 1981. Þeim er raðað niður í 11 flokka. Elsti bíllinn er Bentley Tourer frá 1922. Sá bílanna sem stærstu vélina hefur að sprengirými er Bentley 3/8 frá 1923. Rúmtak vélarinnar í honum er hvorki meira né minna en tæplega átta lítrar – 7.983 rúmsm.

Einn íslenskur fornbíll tekur þátt í þessu – Trabant 1962. Ökumaður hans verður Örn Ingólfsson og aðstoðarökumaður Óskar Jón Hreinsson.

Af öðrum bílategundum í þessum viðburði má svo nefna Aston Martin, Volvo PV 544 og Volvo Amazon, Citroen  DS, Sunbeam, Austin, Triumph, Daimler, Jaguar og Lotus.