888.000 Renault Scenic innkallaðir

http://www.fib.is/myndir/Renault_scenic.jpg
Renault Scenic

Renault hefur innkallað til viðgerðar hvorki meira né minna en 888.000 bíla af gerðinni Scenic. Ástæða eru gallaðir öryggisbeltalásar.

Í frétt frá Renault segir að viðgerðin á hverjum bíl taki um tíu mínútur. Ekki er þess getið hvað þessi innköllun muni kosta í það heila en reikningshausar meðal blaðamanna Auto Motor & Sport hafa fundið út að samtals muni viðgerðin taka 148 þúsund klukkutíma. Það svari til þess að einn bifvélavirki þyrfti að vinna stanslaust dag og nótt í 16 ár.

Það var þýski Netfjölmiðillinn Auto Service Praxis sem fyrstur benti á að beltalásarnir í Scenic gætu gefið sig undir miklu álagi. Í nóvember sl. innkallaði Renault þrjú þúsund nýja Logan bíla vegna þess að aftursætið átti það til að losna.