9. október, dagur Leifs heppna í USA
Barack Obama forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir nú fyrir stundu að framvegis skuli 9. október, dagur Leifs heppna, vera opinber hátíðisdagur í Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu forsetans segir m.a. að hann heiti á alla Bandaríkjamenn að halda upp á þennan dag framvegis með viðeigandi hátíðarhöldum, athöfnum og dagskrá til að minnast og halda í heiðri hinn ríkulega norræna menningararf í Norður-Ameríku. Forsetinn hafði vart sleppt orðinu þegar fregnir bárust af því að hann hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels.
Þann 2. september 1964 samþykkti bandaríska þingið að heimila forseta ríkisins að lýsa 9. október ár hvert sem dag Leifs Eiríkssonar en í dag hefur núverandi forseti Bandaríkjanna tekið af skarið og fullnustað þessi 45 ára gömlu lög.
Í yfirlýsingu forsetans er dagsins 9. október 1875 minnst en þá stigu á land í New York 52 norskir innflytjendur eftir þriggja mánaða sjóferðarvolk frá Stavanger. „Þessir djörfu einstaklingar fóru sömu slóð og hinn frægi norræni könnuður, Leifur Eiríksson hafði áður farið. En rúmum þúsund árum fyrr tók Leifur Eiríksson, sonur Íslands og barnabarn Noregs, land í Ameríku og stofnaði landnámsbyggðina Vínland, á svæði sem sem nú er innan landamæra Kanada. Í dag fögnum við yfir þessari sögulegu för og minnumst þeirra sem tóku sig upp frá fjarlægum löndum og lögðu í ferðalag til Ameríku.“ Hér má sjá yfirlýsingu forsetans í heild.