916 hafa látist í umferðinni á 40 árum
Í dag fór fram kyrrðarstund í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem minnst var þeirra sem látið hafa lítið í umferðarslysum á Íslandi þau 40 ár sem liðin eru síðan hægri umferð var tekin upp. Nemendur í Listaháskóla Íslands höfðu raðað 916 skópörum fyrir framan kirkjuna og til hliðar við hana til minningar um hina látnu.
Umferðarráð vill af þessu tilefni biðja fólk að hugleiða eftirfarandi:
Koma hefði mátt í veg fyrir flest þessara slysa með aðgát, tillitssemi og ábyrgð ökumanna. Ábyrgð sem krefst þess að menn séu með fulla athygli, allsgáðir, noti tilheyrandi öryggisbúnað og aki samkvæmt aðstæðum.
Þessi fjöldi látinna, 916 er líkast því að farþegar sem rétt tæplega fylla fjórar Boeing 757 300 flugvélar hefðu farist. Það má einnig líkja þessu við það að allir íbúar Bolungarvíkur eða Blönduós hefðu látist.
Ef skoðað er hlutfall helstu orsakavalda banaslysa í umferðinni undanfarin 5 – 10 ár og það reiknað af þessum fjölda kemur eftirfarandi í ljós:
Að á þessum tíma hafi allt að 150 einstaklingar látist vegna aksturs eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna.
Að 244 þeirra sem létust hafi verið á aldrinum 0 – 20 ára.
Að u.þ.b. 180 einstaklingar hafi látið lífið af völdum hraðaksturs.
Að u.þ.b. 120 einstaklingar hafi látið lífið vegna þess að ekki voru notuð bílbelti
Að u.þ.b. 45 hafi látið lífið vegna þess að ökumaður sofnaði undir stýri.
Setja þarf þann fyrirvara á þessa útreikninga að eðli og orsakir umferðarslysa hafa breyst mikið á 40 árum. Orsakavaldar sem voru ríkjandi fyrir áratugum þekkjast margir hverjir ekki í dag. Hér er því aðeins verið að leggja út frá hlutfalli helstu orsakavalda undanfarinna 5 – 10 ára.