97 ára fær sér nýjan Ford Mustang
Stundum er sagt að aldur sé fyrst og fremst hugarástand fyrir utan það að vera tölur á blaði. Svíinn Lennart Ribring er vafalítið til vitnis um þetta. Hann er nefnilega 97 ára gamall og nýbúinn að fá glænýjan mjög öflugan og hraðskreiðan Ford Mustang.
Lennart var 45 ára að aldri um það leyti sem fyrsta kynslóð Mustang bíla kom fram snemma á sjöunda áratuginum. Hann heillaðist af bílnum þá og var einn af fyrstu Svíunum sem eignaðist Ford Mustang. Eftir það varð ekki aftur snúið. Lennart hefur ekki litið við öðrumeftir það og segist hafa varla hugsað um aðra síðan. Nýjasti Mustanginn hans er með 5 lítra V8 vél og Lennart segir sér finnist hann vera sem konungur vegarins á bílnum. ,,Ég á sjálfsagt ekki eftir að lifa mjög lengi úr þessu og verð að grípa hvert tækifæri sem gefst til að gera lífið skemmtilegt,“ segir hann við Auto Motor & Sport.
Sonur Lennarts Ribring sem sjálfur er á sjötugsaldri segist engar áhyggjur hafa af föður sínum á tryllitækinu úti í umferðinni. Hann sé fyrirtaks ökumaður og bæði eftirtektarsamur og viðbragðssnöggur. ,,Hann ekur af meira öryggi en flestir aðrir,“ segir sonurinn.