99 ár frá fyrsta þolakstrinum milli Parísar og Bejing
Annar tveggja De Dion bíla sem komust alla leið 1907
Á morgun, laugardaginn 10. júní verða nákvæmlega 99 ár síðan fimm bílar lögðu upp í ríflega 13 þúsund kílómetra ökuferð frá Bejing höfuðborg Kína til Parísar. Á 99 ára afmæli þessa fyrsta meiriháttar þolaksturs sögunnar leggja 33 nýir Mercedes Benz E bílar af stað þessa sömu leið í haust.
Í aðdraganda Bejing-París akstursins gaf að líta í dagblaðinu Le Matin í janúarmánuði árið 1907 svohljóðandi auglýsingu: -Hefur einhver áhuga á að keyra bíl frá Bejing til Parísar í sumar? Nokkrir reyndust til í það og 10 júní lögðu fimm bílar af stað í þennan erfiða leiðangur, kannski einn þann erfiðasta nokkru sinni. Fjórir bílar náðu að komast alla leið þar sem sá fimmti, þriggja hjóla og sex hestafla bíll Frakkans Auguste Pons eyðilagðist tiltölulega fljótlega.
Sigurvegari með yfirburðum varð ítalski prinsinn Scipione Borghese. Bíll hans var mikið tækniundur á þess tíma mælikvarða – af gerðinni Itala og var með 40 hestafla vél. Borghese var furðu fljótur í förum þessa löngu leið, en hann ók inn í Parísarborg þann 10 ágúst 1907 og hafði því verið 62 daga á leiðinni og hafði þó tekið á sig krók til St. Pétursborgar til að komast á dansleik Að leiðarlokum hafði Borghese ekið hvorki meira né minna en 16 þúsund kílómetra í túrnum. Hann var langfyrstur því um það bil þremur vikum seinna komu hinir þrír keppnisbílarnir loks í mark.
Þann 21. október munu 33 Mercedes Benz E dísilbílar leggja af stað frá París til Bejing og er þeim ætlað að vera 28 daga. Leiðin sem þeir aka er nú um 13 þúsund kílómetrar. Bílarnir leggja hins vegar upp frá París á morgun í svona smá-Evrópuferð. Ekið verður um Evrópu þvera á aðeins einum degi.
Í þessar Kínaferð sem farin er til að vekja athygli á nýrri kynslóð E-Benz bíla munu alls 330 ökumenn koma við sögu. Bílarnir verða bæði afturhjóla og fjórhjóladrifnir. Þeir eru af gerðunum E 320 CDI og þrír bílanna eru af gerðinni E 320 Bluetec sem Benzmenn segja að sé mengunarminnsti dísilbíll sem til sé.
Mercedes Benz E, 2006.