Á E-Benz frá París til Bejing
Það væri ekki amalegt að verða útvalinn til að aka þessum vagni áleiðis til Kína.
Eins og sagt var frá í frétt hér á FÍB vefnum þann 9. júní sl. eru 99 ár síðan kappaksturinn mikli milli Bejing í Kína og Parísar í Frakklandi fór fram. Nú ætlar Mercedes Benz að standa fyrir annarri slíkri ökuferð og auglýsir á vefsíðu sinni eftir 66 ökumönnum til að taka þátt í gamninu.
Til að hafa þátttökurétt verður fólk að vera orðið 21 árs og hafa umtalsverða akstursreynslu og vera í bærilegu líkamlegu ástandi.
Mercedes Benz er með þessu að vekja athygli á nýju gerðinni af E-Benzanum. Farið verður á 33 nýjum slíkum bílum og lagt af stað frá París þann 21. október nk. Allir bílarnir verða með nýjustu dísilvélum Mercedes Benz. Áætlaður komudagur til Bejing er 17. nóvember. Leiðin er um 13.600 kílómetrar. Tveir hvíldardagar verða í ferðinni þannig að daglegur meðalakstur verður um 525 kílómetrar.
Ökuleiðin liggur frá París til St. Pétursborgar og Moskvu og þaðan um misgóða malar- og moldarvegi í gegnum Rússland, Síberíu, Kasakstan og Kína. Þeir sem kunna að hafa áhuga á að taka þátt í þessu geta sótt um á alþjóðlegri vefsíðu Mercedes Benz. Þar er því heitið að jákvætt eða neikvætt svar berist síðar í mánuðinum.