Áætlanir gera ráð fyrir því að Sundabraut opni árið 2031

Starfshópur um fjármögnun Sundabrautar hefur tekið til starfa. Hópurinn hefur það hlutverk að vera verkefnisstjórn Sundabrautar til ráðgjafar t.a.m. varðandi undirbúning viðskiptaáætlunar, fjármögnunar og útboðsferlis að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.

Sundabraut er eitt þeirra verkefna sem tiltekið er í lögum um samvinnuverkefni um samgönguverkefni um að megi vinna sem samvinnuverkefni milli hins opinbera og einkaaðila og verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð í takt við lög um samvinnuverkefni. Áætlanir gera ráð fyrir því að Sundabraut opni árið 2031 og þá verður heimilt að innheimta veggjöld.

Í hópnum sitja Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, Sóley Ragnarsdóttir fyrir innviðaráðuneytið og Styrkár Jafet Hendriksson fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Fyrsti fundur hópsins var haldinn í vikunni.

Unnið hefur verið að undirbúning Sundabrautar um langt skeið. Sérstök verkefnastjórn tók til starfa árið 2022 til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautarverkefnisins og frá þeim tíma hefur verið unnið að ýmsum hliðum málsins. Gert er ráð fyrir að umhverfismatskýrsla verði tilbúin í vor og að ákvörðun um leiðaval liggi fyrir um mitt ár.

Þegar ákvörðun um leiðarval liggur fyrir og hún auglýst sem breyting á aðalskipulagi er unnt að hefja útborðsferli samvinnuverkefnisins.

Verkefnið verður langstærsta einstaka verkefnið í samgöngukerfi landsins en miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir má gera ráð fyrir að árleg fjárfesting vegna verkefnisins geti numið á bilinu 20-25 ma.kr. Til samanburðar nema heildarframlög til framkvæmda og viðhalds á vegum um 27 ma.kr á fjárlögum fyrir árið 2025.

Sundabraut hefur verið á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1984

Í áratugi hefur verið talað um að Sundabraut yrði gríðarleg samgöngubót, sem hún sannarleg mun verða. Miklar umræður hafa farið fram um smíði hennar og flestir eru sammála um ágæti slíkra framkvæmda. Saga hennar er með ólíkindum en Sundabraut hefur verið á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1984 en hafist var handa við undirbúning hennar í desember 1995. Vegagerðin og embætti borgarverkfræðings í Reykjavík komu þá fyrst með tillögur að staðsetningu vegarins ásamt gerð hans og var karftur settur í frumhönnun og rannsóknir á árunum 1995 til 2003 við fyrsta áfanga verksins, að mestu leyti. Eftir þetta gerðist fátt. Í október 2023 varð hins vegar náð mikilvægum áfanga í undirbúningi þessarar framkvæmdar.