Áætlanir Samgöngusáttmálans þegar komnar 50 milljarða fram úr áætlun
Bæjarstjóri Kópavogs vill endurmeta áætlanir um kostnað við bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdaráætlun samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé þegar kominn 50 milljarða fram úr áætlun þótt framkvæmdir sé vart hafnar.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, að það sé nauðsynlegt að þeir sem að samgöngusáttmálanum koma fari yfir stöðuna í ljósi þess hversu langt framkvæmdir eru komnar fram úr kostnaðaráætlun.
Endurmeta þurfi stöðuna
Ásdís sagði samtali við RÚV í morgun það blasi við áður en af stað er farið séum við komin yfir 50 milljarða um fram úr áætlunum. Það þurfi að endurmeta stöðuna. Hún segir um gríðarlega mikilvægar framkvæmdir að ræða og því mikilvægt að vanda til verka.
Hver er raunstaðan?
,,Ég er alls ekki að ýta undir að það eigi að hætta við samgöngusáttmálann, síður en svo. Við erum öll sammála því að við sem sitjum í umferð dag frá degi að eitthvað þurfi að gera. Við hérna í Kópavogi og öðrum sveitarfélögum erum svo sannarlega að styðja samgöngusáttmálann og þær framkvæmdir sem eru fram undan á stofnvegum og líka því sem snýr að almenningssamgöngum. Ég vil líka bara fá upp á borðið hver raunstaðan er. Hvernig lítur hún og hvernig ætlum við að framkvæma sáttmálann,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir, í samtali við RÚV í morgun.
Í aðsendri greininni í Morgunblaðinu segir Ásdís samgöngur skipta okkur öll máli, hvort sem við erum gangandi, á hjóli, í bíl eða notum almenningssamgöngur. Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í takt við vaxandi samfélag eru lífskjaramál.
Í greininni kemur fram að svonefndur Samgöngusáttmáli var undirritaður árið 2019. Þar var um að ræða viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna. Með sáttmálanum var ákvörðun tekin um að ráðast í ríflega 52 milljarða króna fjárfestingu í ellefu stofnvegaframkvæmdum, 50 milljarða króna fjárfestingu í borgarlínu og fimmtán milljarða í hjóla- og göngustígum auk búnaðar í umferðarstýringu, svo dæmi séu tekin.
Framkvæmdir vart hafnar
Ásdís segir að í ljós hefur komið að framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans er þegar komin 50 milljarða fram úr áætlun, þótt framkvæmdir séu vart hafnar. Stokkur við Sæbraut er ein framkvæmdanna sem nú er metin ríflega fimmtán milljarða umfram upphaflega áætlun, bara sí-svona eitt verkefni!
Í lok greinarinnar segir Ásdís verkefnið brýnt og er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar ábyrgðahluti þeirra sem að sáttmálanum standa og veita honum fjármagn úr vösum skattgreiðenda að staldra nú við og endurmeta áætlanir.