Áætluð ársframleiðsla Opel Ampera-e 2017 er uppseld
Fyrirhuguð ársframleiðsla rafbílsins Opels Ampera-e 2017 er þegar uppseld nú þegar framleiðslan er rétt að hefjast. Þeir sem panta bílinn nú geta vænst þess að fá hann afhentan í fyrsta lagi um mitt ár 2018.
Þetta kom fram í gær hjá Karl-Thomas Neumann forstjóra Opel á ráðstefnunni Zero í Oslo. Þar afhjúpaði forstjórinn þennan nýja og langdræga rafbíl að ca.100 manns viðstöddum og sagði við það tækifæri að Noregur væri það Evrópuland sem fyrst fengi Ampera-e bíla sína afgreidda enda væri það fremsta rafbílaland veraldar.
Margir þeirra sem viðstaddir voru afhjúpun bílsins hafa þegar undirritað bindandi kaupsamning um Opel Ampera-e. Þeir og aðrir sem hafa staðfest pantanir sínar munu fá bíla sína afhenta í maí-júní á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að heildarverðið sé í kring um 4,3 milljónir ísl. kr. Frá því dragast svo ýmsir kauphvatar eins og styrkir og ívilnanir sem meta má til allt að 850 þús. ísl. kr. Það verð sem kaupendur greiða af peningum úr eigin vasa fyrir nýjan Opel Ampera-e í Noregi getur því orðið 3,4-3,5 millj. ísl. kr.
Hið uppgefna drægi Ampera-e er 500 km samkvæmt NEDC staðalmælingunni. Líklegt drægi bílsins í venjulegri daglegri notkun gæti þannig sýnt sig að vera 350-450 kílómetrar. Vegna langdrægni sinnar telst þessi bíll því til fjórðu kynslóðar rafbíla. Algengt drægi fyrstu kynslóðar rafbíla var 100 km eða minna
Opel Ampera-e er hreinn rafbíll. Í honum er ekki bensín- eða dísilrafstöð. Tæknilega er þetta sami bíll og Chevrolet Bolt og báðir eru framleiddir í einni og sömu verksmiðjunni í Detroit í Bandaríkjunum en rafhlöðusamstæðan sem byggð er í gólf undirvagnsins kemur frá LG í S. Kóreu. Lengd bílsins er 4,17 m sem þýðir að hann er að stærð mitt í milli Opel Corsa og Opel Astra.
Innanrými hans er svipað og í Opel Astra enda þarfnast rafmótorinn og mótorstýringin minna rýmis en bensín eða dísilvél og 60 kílóWattstunda geymasamstæðan er byggð í gólf bílsins og algerlega flöt. Það þýðir að farangursrýmið getur verið ámóta og í Opel Astra eða 381/1274 lítra. (seinni talan þegar aftursætisbakið er niðurfellt að fullu). Rafmótorinn er 204 hestöfl og skýtur bílnum í hundraðið á 7,3 sekúndum. Millihröðun úr 80 í 120 km /klst tekur 4,5 sek.