Ábendingar til ökumanna áður en haldið er út í umferðina

Verslunarmannahelgin hefur í gegnum árin verið ein mesta ferðahelgi ársins.  Kórónuveiran og veðurspá fyrir helgina í ár mun sennilega draga verulega úr umferðarþunga á vegum landsins. Tilmælin frá almannavörnum um að fara sér hægt yfir helgina munu draga úr umferð og flestir verða heima í rólegheitum í faðmi fjölskyldu og vina.  Líkt og alltaf beinir FÍB því til ökumanna sem ætla að vera á ferðinni að gefa sér nægan tíma áður en haldið er út í umferðina. Munið að taka enga áhættu með framúrakstri, stillið hraðanum í hóf og spennið beltin. Markmiðið er að njóta ferðalagsins og tryggja að allir komi frískir á áfangastað.

Þeir sem hyggja á ferðalag á heimilisbílnum um helgina ættu að athuga ástand bílsins áður en lagt er af stað. Allir vilja forða því að vera með bilaðan bíl fjarri heimili og oft er erfitt að fá þjónustu yfir háannatímann og utan hefðbundins þjónustutíma. Óvæntri bilun fylgja oftast útgjöld og stundum mikil. 

Félagar í FÍB njóta þess að hafa aðgang að neyðarþjónustu FÍB Aðstoðar allan sólarhringinn 365 daga ársins.  Aðstoðin er án endurgjalds fyrir FÍB félaga innan þjónustusvæða FÍB Aðstoðar í samræmi við skilmála sama á við um símaaðstoðina sem veitir góð ráð og upplýsingar um þjónustuaðila. Símanúmer FÍB Aðstoðar er 5-112-112.  Sjá nánar um FÍB Aðstoð:

Á ferðalögum er bíllinn oftast meira hlaðinn og vegir misgóðir þannig að álagið er meira en við daglegan akstur. Bíleigendur geta farið yfir ástand bílsins að hluta sjálfir en hemla og annan öryggisbúnað á að láta fagmenn athuga.

Dekkin

Mikið hefur verið leitað til félagsins vegna vandræða ferðalanga í tengslum við dekk.  Það hefur borið á því að fólk sé á ferðalagi án þess að hafa varadekk sem hægt er að nota í neyð. Þetta á bæði við um dekk undir bíla og ferðavagna. Áður en lagt er af stað í ferðalagið verður að fara vel yfir ástand hjólbarða og varahjólbarða.

Sumir nýrri bílar eru ekki með varadekk í fullri stærð og í sumum bílum er ekkert varadekk einungis dekkja þéttiefni og loftdæla. Mikilvægt er að kynna sér vel hvernig á að nota loftdæluna og þéttiefnið. Dekkja þéttiefni gerir lítið gagn ef rifa kemur á hlið dekks.

Stundum er hægt að bjarga sér með dekkjatöppum og lími ef gat kemur á hlið og þá þarf einnig að hafa loftdælu til að blása upp dekkið.

Dekk verða að vera í lagi. Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm. Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta dekkjasliti á ferðalaginu. Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs.

Kannið loftþrýsting dekkja og athugið ástand varahjólbarða. Loftþrýsting þarf að auka ef bifreiðin er mikið hlaðin. Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur hjólbarðanna og um leið veggrip þeirra.

Yfirleitt eru upplýsingar um réttan loftþrýsting að finna í handbók bílsins en einnig má spyrjast fyrir hjá þeim sem til þekkja svo sem hjá bifvélavirkjum, starfsmönnum hjólbarðaverkstæða eða skoðunarstöðva.

Einnig er mikilvægt að jafn loftþrýstingur sé í hvoru framhjóli og hvoru afturhjóli fyrir sig.

Verkfæri og öryggisbúnaður

Yfirfarið verkfærasett bílsins. Gott er að smyrja tjakkinn og jafnvel fleiri verkfæri. Eftirfarandi verkfæri er ráðlagt að hafa í bílnum: Felgulykil, skiptilykil, átaksstöng, kertalykil, skrúfjárnasett, bittöng, loftþrýstimæli og vasaljós.

Það er skylda að hafa viðvörunarþríhyrning í öllum bílum og að auki mælum við hjá FÍB með því að í bílnum sé sjúkrataska (-kassi), öryggisvesti, dráttartóg, bensínbrúsi og ekki gleyma sólgleraugunum.

Mikið og gott úrval öryggisvara fæst í verslun FÍB Skúlagötu 19 í Reykjavík og netverslun.

 

FÍB ráðleggur bíleigendum eftirfarandi áður en lagt er af stað í langferð:

Kanna ástand dekkja og loftþrýsting

Kanna olíustöðu á vél

Yfirfara virkni ökuljósa og ljósabúnað

Athuga kælivökva

Kanna ástand og stillingu viftureimar (slit?, slaki?)

Athuga vatnsstöðu rafgeymis (eimað vatn)

Hreinsa póla á rafgeymi og leiðslur með fínum sandpappír eða vírbursta

Fara yfir og smyrja hurðalamir o.fl.

Kanna ástand höggdeyfa

 

Ekki snerta bílinn eftir að búið er að neyta áfengis. Látið snjallsíma og samfélagsmiðla eiga sig á meðan á akstri stendur.

 

Góða ferð!