ABS hemla á öll mótorhjól strax
Vinnufundur sérfræðinga sem haldinn var að frumkvæði Evrópuskrifstofu FiA (Fédération Internationale de l’Automobile) í síðustu viku leggur eindregið til að læsivarðir hemlar (ABS) verði þegar í stað skyldubúnaður á mótorhjólum. ABS hemlar hafa löngu sannað sig í því að stytta hemlunarvegalengd bíla og mótorhjóla verulega auk þess að farartæki með ABS hemlum verða stöðugri í hemlun. Ef hjól mótorhjóls hætta að snúast meðan á hemlun stendur, fellur hjólið. ABS læsivörnin sér til þess að hjólin hætta ekki að snúast meðan á nauðhemlun stendur, hemlunarvegalengdin styttist umtalsvert og hjólið lætur að stjórn og ökumaður þess getur jafnvel beygt frá hættunni um leið og hann nauðhemlar.
Þær slysarannsóknir sem gerðar hafa verið á vegum FiA og aðildarfélaga sambandsins leiða ótvírætt í ljós að ABS hemlar gætu dregið úr dauðaslysum á mótorhjólafólki um minnst 20% til og með árinu 2020, svo fremi sem ABS hemlar yrðu skyldubúnaður á öllum nýjum mótorhjólum í Evrópu frá og með árinu 2011. Með þessu myndi mótorhjóladauðaslysum fækka um 5.500 á 10 ára tímabili.
Mótorhjólaökufólk er 16 sinnum líklegra til að láta lífið í umferðarslysum en þeir sem aka bílum. Dauðaslysum mótorhjólafólks hefur fjölgað um 10% á árunum 2000 til 2008. ABS mun ekki einungis fækka þessum dauðaslysum heldur líka mótorhjólaslysum almennt og draga úr alvarlegum meiðslum.
Evrópuráðið hefur lagt til að ABS verði skyldubúnaður í nýjum mótorhjólum frá og með 2017. Því miður nær tillagan einungis til mótorhjóla sem eru með vélum frá 125 rúmsm að stærð og ekki til hjóla með minni vélar en 125 rúmsm.. Samkvæmt niðurstöðum fyrrnefndra slysarannsókna FiA og aðildarfélaganna mun þessi tillaga Evrópuráðsins leiða til einungis 8% fækkunar mótorhjóladauðaslysa fram til ársins 2020. Það myndi þýða 1.100 færri dauðaslys á 10 ára tímabili.
Evrópuskrifstofa FiA og evrópsku aðildarfélög sambandsins, þar á meðal FÍB, fara þessvegna eindregið fram á að öll ný mótorhjól í Evrópu frá 50 rúmsm vélarstærð og upp úr, verði eins fljótt og hægt er með ABS hemlum.
FIA og öll aðildarfélög samtakanna munu héðan í frá ráðleggja öllum þeim félagsmönnum sínum sem eru í mótorhjólahugleiðingum að hugsa eingöngu um kaup á mótorhjólum með ABS hemlum. Samtökin ráðleggja jafnframt mótorhjólafólki að sækja bestu kennslu og þjálfun í akstri á mótorhjólum með ABS sem völ er á. Þannig nýtist búnaðurinn þeim best og verður sú hjálp og slysavörn sem honum er ætlað að vera.
Loks hvetur Evrópuskrifstofa FIA Evrópuþingið til að falla ekki í þá freistni að útvatna tillöguna um ABS hemla í öll mótorhjól með því að takmarka búnaðinn sem skyldubúnað við miðlungs- og þaðan af stærri mótorhjól.