Ábyrgðarskilmálar á flestum bíltegundum frá BL framlengdir
BL hefur að höfðu samráði við framleiðendur umboðsins ákveðið að lengja skilmála á verksmiðjuábyrgð flestra bíltegunda umboðsins um tvö ár frá og með nýliðnum áramótum.
Með breytingunni lengist framleiðsluábyrgð MG og Hyundai úr fimm árum í sjö, á Dacia, Nissan, Renault og Subaru úr þremur árum í fimm auk þess sem ábyrgðir BMW og MINI fara úr tveimur árum í fjögur. Ábyrgð á Isuzu verður áfram óbreytt, fimm ár og sömuleiðis skilmálar Jaguar Land Rover sem gilda í þrjú ár eins og verið hefur.
Aðrir ábyrgðarskilmálar eru nokkuð mismunandi eftir bíltegundum, einkum er varðar kílómetrafjölda. Þannig ábyrgjast BMW og MINI framleiðslu bíla sína í fjögur ár eða allt að 200 þúsund km akstur eftir því hvort kemur fyrr.
Fimm ára ábyrgð Dacia, Nissan og Renault tekur til allt að 160 þúsund kílómetra að undanskildum Nissan eNV200 og Leaf og Renault Kangoo EV og Zoe, þar sem ábyrgðin tekur til allt að 150 þúsund km aksturs eftir því hvort kemur á undan. Fimm ára ábyrgð Subaru tekur til 120 þús. km aksturs eins og verið hefur.
Sjö ára ábyrgðir á Hyundai og MG taka til 150 þús. km aksturs og fimm ára ábyrgðin á Isuzu til 100 þús. km aksturs sem hvort tveggja er óbreytt frá því sem verið hefur. Þriggja ára ábyrgð á Jaguar Land Rover er óháð því hversu mikið bílunum er ekið.