Ábyrgðarskilmálar Kia ólöglegir
Sænskur samkeppnisdómstóll felldi þann dóm í gær að ábyrgðarskilmálar sem Kia setur vegna nýrra bíla, séu ólöglegir. Þeir hindri að önnur bílaverkstæði en þau sem framleiðandinn hefur sérstaklega valið, geti þjónustað bílana á ábyrgðartíma sem er sjö ár. Með þessum skilmálum hafi Kia í Svíþjóð brotið gegn evrópskum samkeppnislögum.
Dómurinn er lokaþáttur í máli sem SBF; samband óháðra varahlutasala og bílaverkstæða höfðaði fyrir samkeppnisdómstólnum vegna gruns um að Kia í Svíþjóð bryti gróflega gegn anda og inntaki Evrópulaga um viðgerða- og viðhaldsþjónustu fyrir vélknúin ökutæki. Samkvæmt lögunum (sem líka gilda á Íslandi) er eigandi bíls frjáls að því að velja það verkstæði eða smurstöð sem hann sjálfur kýs, hafi verkstæðið á annað borð starfsleyfi og nauðsynlega þekkingu og færni innan sinna vébanda. Kæran laut að ákvæðum í ábyrgðarskilmálum nýrra Kia bíla um að ábyrgð félli niður ef önnur verkstæði en þau sem innflytjandi Kia í Svíþjóð hafði sérstaklega viðurkennt, þjónustuðu bílana á ábyrgðartíma. Samkvæmt dómnum er það alrangt.
Talsmaður SBF, Christer Liljenberg segir við Motormagasinet í Svíþjóð að dómurinn sé mjög afgerandi og Kia í Svíþjóð verði samkvæmt honum að breyta ábyrgðarskilmálum sínum sem hingað til hafi verið miskunnarlaust beitt til þess að útiloka alla sem ekki voru innan eigin þjónustunets Kia frá því að þjónusta bílana. í sjálfum réttarhöldunum hafi Kia-menn lagt áherslu á að rægja og sverta frjálsu verkstæðin og sænska bifvélavirkja almennt sem óhæfa, meðan SBF hafi sýnt fram á hvernig Kia hefur náð algerlega undir sig allri þjónustu við Kia bíla á ábyrgðartíma í blóra við gildandi lög.
-Dómurinn er að okkar mati sigur hins frjálsa markaðar í rekstri bílaverkstæða sem nú geta keppt á jafnréttisgrundvelli. Dómurinn er þó fyrst og fremst sigur sænskra bifreiðaeigenda sem öðlast sama frelsi og aðrir íbúar Evrópska efnahagssvæðisins til þess að velja sjálfir þann þjónustuaðila sem þeir treysta best, segir Christer Liljenberg við Motormagasinet.
Í dómsniðurstöðunni segir að Kia í Svíþjóð sé óheimilt að þvinga kaupendur til þess að skipta einungis við sér þóknanleg verkstæði. Kia verkstæðin hafi ekki einkarétt á því að gera við og þjónusta Kia bíla og Kia hafi heldur ekki einkarétt á sölu varahluta í bílana. Kia er dæmt til að greiða allan málskostnað til viðbótar við fimm milljón SKR sekt fyrir brot gegn samkeppnislögum.
Kia í Svíþjóð hefur legið undir grun um markaðsmisnotkun af þessu tagi allt frá 2010 því að í skýrslu sænsku samkeppnisstofnunarinnar sem þá kom út og hét Ábyrgðarskilmálar við sölu nýrra bíla (Garantivillkor vid nybilsförsäljning) segir að ábyrgðarskilmálarnir hjá Kia þvert á samkeppnislög og reglur. Stofnunin greip þó ekki til aðgerða þá vegna þess hve markaðshlutdeild Kia þótti lítil.
Málssókn SBF og dómurinn í gær er að mati Motormagasinet mjög mikilvægur og á eftir að hafa víðtæk áhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að hann staðfestir sjálfsákvörðunarrétt bifreiðaeigenda og treystir samkeppnisstöðu þeirra bílgreina sem eru óháðar einstökum framleiðendum bifreiða og –varahluta.