AC Cobra
AC Cobra var táknmynd ofursportbíla og keppnisbíla upp úr miðri 20. öldinni og er sveipaður dýrðarljóma enn í dag. Fleiri eftirlíkingar þessa bíls hafa verið gerðar en af nokkrum bíl öðrum í bílasögunni og eru minnst tíu sinnum fleiri eftirlíkingar nú í umferð en þau eintök bíla sem upphaflega voru byggð.
AC Cobra varð upphaflega til út frá hugmynd bandaríska kappakstursmannsins og þáverandi hænsnabóna, Carrolls Shelby. Hugmynd hans var sú að sameina breska og evrópska kunnáttu í byggingu sportbíla og bandaríska kunnáttu á svíði öflugra bílvéla. Þetta gerði hann svo með því að setja ameríska V8 vél frá Ford í vélarrýmið á breskum AC sportbíl. Árangurinn varð sá að til varð bíll sem var ósigrandi á kappakstursbrautum Evrópu og Ameríku um skeið og sló við tryllitækjum eins og Ferrari, Mercedes o.fl. Á árunum 1959 til 1968 voru byggðir alls 979 AC Cobra sportbílar af upphaflegu gerðunum. Þá var starfseminni hætt en Cobra gleymdist ekki, síður en svo. Fjöldamargar bílasmiðjur hafa síðan byggt eftirlíkingar Cobra, bæði sportbílasmiðjur og smiðjur sem búa til undirvagna og
Carroll Shelby við þrjá AC Cobra 427. Myndin er frá 1963 |
yfirbyggingar fyrir áhugamenn sem byggja sér bíla sem oftast eru eftirlíkingar frægra sígildra bíla. Þessar smiðjur hanna burðarvirkin og smíða þannig að auðvelt sé að koma fyrir vélum, drifi, hjólabúnaði, stýri og hemlum úr algengum bílum eins og Ford Mustang, Jaguar og jafnvel Ford Siera. Þessir framantöldu bílar eru algengir „líffæragjafar“ fyrir þá Cobrabíla sem fólk er að byggja heima í bílskúr.
Sú gerð af AC Cobra sem vinsælast er að eftirlíkja nefnist 427. 427 gerðin var framleidd á árinu 1965 og sú V8 vél frá Ford sem í bílnum var, var 5,7 lítrar að rúmtaki og 425 hestöfl. Þær eftirlíkingar sem nú eru byggðar eiga fátt sameiginlegt með upprunalega bílnum annað en útlitið. Burðarvirkið er af ýmsu tagi, gjarnan grind úr prófílum eða stálrörum og yfirbygging úr trefjaplast eða áli. Þá er allur gangu á því hverskonar vélar eru notaðar. Sumar eru auðvitað risastórar og öflugar V8 vélar en stundum mun minni vélar, V6 eða jafnvel fjögurra strokka vélar.
Ein heimabyggð Cobra eftirlíking er til á Íslandi. Í henni er V8 vél frá GM og sjálfskipting, sem Shelby hafði ekki í upprunalegu bílunum. Þeir voru með fjögurra gíra handskiptingu og komust á 290 kílómetra hraða í fjórða gír. En þegar tætt var af stað á kappakstursbrautinni var byrjað á því að fara í 125 kílómetra hraða í fyrsta gír.