Að afstaðinni verslunarmannahelgi
Vegna sumarleyfa á skrifstofu FÍB hefur fréttaflutningur hér á heimasíðunni verið stopull að undanförnu en lesendur mega vænta þess að úr taki nú að rætast.
Síðasta fréttin hér á undan birtist þegar verslunarmannahelgin var að ganga í garð. Þar var greint frá því að þjónustunet félagsins væri nú þéttara en það hefur kannski nokkru sinni verið áður. Skemmst er frá því að segja að það reyndist mjög vel og allir þjónustu- og samstarfsaðilar FÍB innan þjónustunetsins unnu frábært starf og leystu þau fjöldamörgu vandamál sem upp komu þannig að fullyrða má að sérhver þeirra mörgu sem leituðu til félagsins í nauðum um þessa mestu ferðahelgi ársins fengu skjóta og farsæla lausn sinna mála.
Eins og undanfarna rúma hálfa öld sem vegaþjónusta FÍB hefur starfað var hún sérstyrkt um þessa helgi með auknum mannafla og aukabílum sem voru á ferð í öllum landshornum og í viðbragðsstöðu allan sólarhringinn. Eins og í fyrra lét Hekla hf félaginu endurgjaldslaust í té nokkra bíla af Volkswagen Golf gerð sem voru sérmerktir og auðkenndir FÍB – Aðstoð. FÍB þakkar fyrirtækinu og forsvarsmönnum þess – sérstaklega Marinó B. Björnssyni forstöðumanni Bílasviðs Heklu, fyrir lánið á bílunum og þann velvilja sem félaginu og íslenskum ferðalöngum er með þessu sýndur.