Að duga eða drepast
Á 150. afmælisári sínu leggur Opel í Þýskalandi ofuráherslu á nýja smábílinn sinn, Opel Adam sem mun koma á almennan markað fljótlega. Það er ekki að furða því að gengi þessa athyglisverða bíls mun skipta sköpum um framtíð Opel - hvort Opel hreinlega lifir eða deyr.
Mikilvægi þesssa nýja bíls fyrir Opel verður vel sýnilegt á Parísarsýningunni sem nú stendur því að aðrir Opelbílar eru tæpast sjáanlegir á sýningarsvæði Opel. Nýi bíllinn er nefndur eftir Adam, stofnanda Opel. Honum er fyrst og fremst ætlað að keppa við Fiat 500 og Mini Cooper sem báðir eru útlitishannaðir í anda upprunalegra bíla með sömu nöfnum.
Hjá Opel hafa menn ekki farið þá leið heldur er hann algerlega nýr og ekkert í útliti hans sem minnir á gamla tíma. Nýsköpunin ræður ríkjum í flestöllu og kaupendur eiga þess kost að fá bílinn nánast klæðskerasaumaðan fyrir sig. Þannig eru yfir 30 gerðir af felgum að velja í milli og meira að segja baksýnisspegillinn inni í bílnum fæst í fjölmörgum litum svo fátt sé nefnt. En hvað varðar innréttingar og búnað þá verður um þrjár meginlínur að ræða sem heita þeim frumlegu nöfnum Jam, Glam og Slam.
Adam bílarnir verða í fyrstunni fáanlegir með þremur gerðum bensínvéla sem eru 70-100 hö. Sú sparneytnasta þeirra gefur frá sér 118 grömm af CO2 á kílómetrann. Síðarmeir er svo fleiri vélargerða að vænta, þar á meðal dísilvéla.