Aðeins 3.500 eintök
Bílasýningin í Chicago hófst í gær og stendur til 18 febrúar nk. Þar sýnir Volkswagen sérstaka gula og svarta viðhafnar- og afmælisútgáfu af nýju Bjöllunni, svonefnda GSR-línu. Í gær voru 40 ár síðan VW kom fram með GSR-línu gömlu Bjöllunnar, en hún var byggði í 3.500 eintökum á grunni 1303 S- gerð gömlu Bjöllunnar. Nýja R-línan nú er einmitt líka byggð í einungis 3.500 eintökum.
GSR er skammstöfun fyrir Gelb schwarzer Renner eða gul-svartur keppnisbíll. Nýi GSR bíllinn er með 210 hestafla vél en það er ríflega fjórföld hestaflatala GSR bílsins frá 1973. VW 1303 S kom fram á sjónarsviðið fyrst undir lok ársins 1972. Hann var verulega breyttur samanborið við hefðbundnu Bjölluna. Í stað vindufjöðrunarinnar að framan var nú komin McPherson fjöðrun að framan ásamt diskahemlum og endurbætt fjöðrun og hjólastell að aftan, ættað frá Porsche. Þá var framrúðan verulega stærri og bogamyndaðri en áður og farangursrýmið undir húddinu mun stærra. Í GSR útgáfunni sem sýnd var fyrst þann 7. febrúar 1973 var loftkæld vél eins og áður en í stað 1300 rúmsm vélarinnar var hún 1600 rúmsm eða sú sama og í VW rúgbrauðinu og heil 50 hestöfl.
Eins og í GSR bílnum frá 1973 eru felgurnar í nýja bílnum 15 tommu. Báðir eru auðþekktir á gula litnum, L13M Saturngelb, eins og hann heitir fullu nafni, og mattsvarta litnum sem heitir L41 Mattschwarz. Á nýja bílnum er húddið og toppurinn með svarta litnum en á þeim gamla var það húddið og vélarlokið að aftan sem var svart.
GSR-útgáfan af VW 1303 S varð talsvert eftirsóttur og seldust öll 3.500 eintökin fljótt. Síðan hefur þessi sérgerð gleymst flestum nema alhörðustu bílaáhuga- og þó sérstaklega VW áhugamönnum. Af þessum 3.500 bílum sem byggðir voru er talið að um 100 séu enn til.
Opnað verður fyrir pantanir á nýja GSR bílnum í maímánuði og mega þeir sem panta bílinn búast við að fá hann afgreiddan með haustinu. Í Þýskalandi mun hann kosta € 30,300.