Aðeins bílar með ESC geta framvegis fengið fimm stjörnur

http://www.fib.is/myndir/Euroncap-logo.jpg

Framvegis verður ESC stöðugleikabúnaður forsenda þess að bílar geti yfirleitt fengið fimm stjörnur í árekstursprófum EuroNCAP. Prófin verða hert umtalsvert. m.a.  með því að nú verða sæti bíla metin út frá meiri eða minni líkum á hálshnykk við árekstur. Jafnframt verður öryggiseinkunn fyrir börnin í aftursætinu og fyrir fótgangendur reiknuð inn í aðal-öryggiseinkunn bílanna. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir að þessar nýju matsreglur EuroNCAP séu framför og framhald á því árangursríka starfi sem stofnunin hefur unnið og sem hefur og mun áfram skila almenningi stöðugt öruggari bílum.
http://www.fib.is/myndir/EuroNCAP-nyttlogo.jpg
Til þessa hafa rannsóknir EuroNCAP einkum beinst að því að kanna öryggi ökumanns og farþega í framsæti ef slys verður. Þetta hefur verið meginforsenda öryggiseinkunnar bílanna. Bílaframleiðendur hafa jafnt og þétt gert endurbætur á bílunum í samræmi við niðurstöður EuroNCAP og er nú svo komið að öryggi  ökumanns og framsætisfarþega er í flestum tilfellum orðið bærilegt. Því vill EuroNCAP nú beina meiri kröftum að öryggi fótgangandi og að öryggi barnanna í aftursætinu og reikna niðurstöður um öryggi þeirra inn í heildar-öryggiseinkunn hvers bíls, sem ekki hefur verið gert fram að þessu.

Nýjung er einnig að framvegis verða framsæti og hnakkapúðar bíla skoðuð sérstaklega með tilliti til hættu á hálshnykk og niðurstöðurnar reiknaðar inn í öryggiseinkunn bílanna. Síðar í mánuðinum verða birtar niðurstöður um hálshnykkshættu í þeim 25 bílum sem árekstursprófaðir hafa verið á þessu ári. Einstakir matsþættir verða með mismunandi mikið vægi í heildar-öryggiseinkunn hvers bíls. Hver matsþáttur, eins og öryggi fullorðinna, öryggi barnanna í bílnum og fótgangandi, verður skilgreindur og birtur sérstaklega til að neytendur geti betur áttað sig á hlutunum út frá eigin forsendum og fjölskylduhögum.

Allir þessir öryggisþættir koma síðan saman í einni heildareinkunn sem
getur hæst orðið fimm stjörnur. Bæði bílaframleiðendum og söluaðilum bíla verður frjálst og að nota þessar upplýsingar í auglýsingum og kynningum á viðkomandi bílum. Sérhvert áreksturspróf verður svo með ársmerkingu þannig að EuroNCAP getur haldið áfram að þróa árekstursprófin án þess að hætta verði á ruglingi milli nýrra og eldri árekstursprófa. 
http://www.fib.is/myndir/ESC-NCAP-logo.jpg
Fyrstu niðurstöður árekstrarprófa samkvæmt nýju vinnureglunum verða birtar í febrúar nk.  Dr Michiel Van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP sagði þegar nýja fyrirkomulagið var kynnt að enginn vafi léki á því að það þýddi auknar kröfur á hendur bílaframleiðendum en jafnframt meiri heiður fyrir það sem vel er gert.

Allar nánari upplýsingar um áreksturs- og öryggispróf EuroNCAP og um niðurstöður varðandi einstaka bíla er og verður að finna á heimasíðu EuroNCAP.

ESC stöðugleikabúnaður verður framvegis forsenda þess að bíll geti fengið fimm EuroNCAP stjörnur.