Aðgerðaáætlun um rafbíla

Starfshópur rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands hefur að beiðni forsætisráðherra mótað stefnu og gert aðgerðaáætlun um rafbílavæðingu á Íslandi. Áætlunin tekur til næsta áratugs og er markmið áætlunarinnar það að rafbílar verði orðnir einn tíundi hluti bíla í umferð fyrir lok ársins 2025. Fulltrúar Verkfræðingafélagsins afhentu á gamlársdag forsætis- og iðnaðarráðherra stefnumótunina og áætlunina að viðstöddum öðrum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands. FÍB kom að gerð stefnumótunarinnar og aðgerðaáætlunarinnar en fulltrúi félagsins er í starfshópnum.

http://fib.is/myndir/Raduneyti.jpg
Kristinn Andersen formaður Verkfræðingafélags Íslands
afhendir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tillögur félags-
ins um rafbílavæðingu á Íslandi.

Segja má með réttu að fá lönd séu betur til þess fallin en Ísland að raforkuvæða bílaflotann. Hér er gnótt rafmagns sem framleitt er með virkjaðri orku fallvatna og þannig endurnýjanleg og vistvæn, í það minnsta í samanburði við það að brenna upp olíu sem orðið hefur til á milljónum ára og ekki endurnýjar sig.

Vissulega hefur það verið vilji þeirra sem með stjórn landsins hafa farið allmörg undanfarin ár, að nýta hina vistvænu innlenda orku til samgangna, bæði landi og þjóð til hagsbóta en líka  til þess að draga úr CO2 losun. Það hafa stjórnvöld sýnt í verki með því að fella niður aðflutningsgjöld, veggjöld og VSK (að stórum hluta) á rafbíla og aðra mengunarlausa bíla. Gallinn hefur bara verið sá að þessar niðurfellingar hafa gilt ár og ár í senn, en verið framlengdar á síðustu augnablikunum áður en alþingi tekur sér jólafrí. Þetta hefur skapað árlega óvissu um framhaldið og er efalítið helsta ástæða þess að fólk hefur haldið að sér höndum varðandi kaup á rafbílum. Langtímastefnu stjórnvalda – stefnu sem treysta má að haldi, hefur vantað.

Það er því gleðiefni að einmitt Verkfræðingafélag Íslands hefur tekið þessi mál upp á sína arma og mótað hyggilega langtímastefnu fyrir stjórnvöld að fylgja. Til að ná settu markmiði um að einn tíundi bíla í umferð verði rafbílar fyrir árslok 2025 leggur starfshópurinn eftirfarandi m.a. til:

   1.  Engin innflutningsgjöld verði á rafbílum þar sem enginn útblástur 
        gróðurhúsalofttegunda berst frá þeim.
   2.  Enginn virðisaukaskattur verði greiddur af rafbílum.
   3.  Enginn virðisaukaskattur verði greiddur af rekstrarleigu rafbíla.
   4.  Enginn virðisaukaskattur verði greiddur af bílaleigu rafbíla.