Aðhald FÍB og fjölmiðla forsenda þess að olíuverð taki breytingum
Aðhald samtaka á borð við FÍB og fjölmiðla er forsenda þess að olíuverð taki breytingum. Óvenju lítil samkeppni sé á olíumarkaði á Íslandi og þegjandi samráð sé nú ríkjandi. Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB, í Morgunútvarpi á Rás 2 í morgun.
Runólfur sagði ennfremur í viðtalinu að fyrirtæki á olíumarkaði hér á landi vera sátt við sinn hlut og reyni þar af leiðandi ekki að skapa sér sérstöðu með því að vera í samkeppni í verði. Hræðsla sé við að rukka bátnum en að halda öllu óbreyttu á markaðnum. Stærstu fyrirtækin séu í eigu sömu aðila sem hafi það í för með sér að þegjandi samráð sé ríkjandi á markaðnum.
„Það gerist ekkert fyrr en fjölmiðlar og samtök eins og okkar fara af stað. Þá sjáum við eitthvað allt í einu fara að breytast. Þannig að menn hanga á öllu þar til að einhver fer að rugga bátnum. Það er ekki það að markaðurinn sjálfur sé á tánum og sjái tækifæri. Heldur þarf eitthvað aðhald fjölmiðla og samtaka eins og okkar til þess að eitthvað gerist. Við sáum það bara í gær, í kjölfar þess að þetta komst í almenna umræðu, bæði í gegnum alþjóðapressu og í gegnum það sem að fer í gang hér. Þá kemur allt í einu lækkun og bensínverð lækkaði um fimm krónur í gær. Þetta er handvirk lækkun, ekki einhver viljaaðgerð að hálfu fyrirtækja sem vilja skapa sér góða stöðu gagnvart sínum neytendum,“ sagði Runólfur Ólafsson í samtalinu við Morgunútvarp Rásar 2.
Hlusta má viðtalið við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB, í heild sinni hér.