„Ætliði ekki að fara að byrja á akstursgerðinu?“
07.07.2005
Tveir stjórnarmenn í FÍB, þeir Árni Sigfússon formaður og Ólafur Kr. Guðmundsson eru nýkomnir úr heimsókn til sænska bæjarins Trollhättan en þangað fóru þeir ásamt tveimur bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ, vinabæ Trollhättan.
Bæjaryfirvöld í Trollhattan líta á það sem forgangsverkefni að tryggja umferðaröryggi sem allra best og er bærinn í fararbroddi í þeim efnum í Evrópu og hefur náð frábærum árangri í því að fækka umferðarslysum. Íslendingarnir fóru þangað til að kynna sér þessi mál og skoðuðu m.a. umferðarmannvirki, svo sem götur, vegi og vegamót og umhverfi vega, umferðarstjórn, skipulagsmál og annað sem umferðaröryggi og umferðarmálum tengist. Geta má þess að í Trollhättan eru bílaverksmiðjur Saab til heimilis.
Sömuleiðis skoðuðu Íslendingarnir lokað aksturssvæði skammt frá Kaupmannahöfn í Danmörku þar sem bæði ökunemar og þeir sem vilja ná betri tökum á akstri almennt, geta fengið akstursþjálfun við öruggar aðstæður og við hverskonar skilyrði sem upp kunna að koma í almenri umferð. Forstöðumaður aksturssvæðisins tók vel á móti hópnum en gat þess við komu þeirra að þeir væru fimmta sendinefndin sem frá Íslandi kæmi undanfarin tvö ár. „Eru menn ekki að verða búnir að skoða nóg? Er ekki kominn tími til að hefjast handa og koma upp svona aðstöðu á Íslandi?“ spurði hann.
Fulltrúar FÍB og Reykjanesbæjar í heimsókn í Trollhättan. F.v: Stig Fredriksson bæjarstjóri Trollhättan, Árni, Sigfússon formaður FÍB, Ólafur Kr. Guðmundsson stjórnarmaður í FÍB, Viðar Aðalsteinsson og Steinþór Jónsson frá Reykjanesbæ.