Afhjúpuðu rafknúna kappakstursbílinn TS17

Kappaksturs- og hönnunarliðið Team Spark, sem skipað er nemendum við Háskóla Íslands, afhjúpaði rafknúna kappakstursbílinn TS17 (Laka) með mikilli viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni á Háskólatorgi. Liðið tekur þátt í kappaksturs- og hönnunarkeppnum stúdenta bæði á Ítalíu og í Austurríki í sumar.

Team Spark hefur hannað og smíðað kappakstursbílinn í vetur. Hann ber ekki aðeins nafn liðsins og ársins, þ.e. TS17, heldur einnig íslenskt nafn er bíll þessa árs kenndur við eldsstöðina Laka.

Liðið er skipað verkfræðinemum við Háskóla Íslands og nú í fyrsta sinn nemanda í viðskiptafræði sem kemur að vinnu við viðskiptaáætlun vegna bílsins. Alls hafa 45 nemendur komið að hönnun bílsins frá því í fyrrahaust en nemendur fá hluta vinnunnar metna í námi sínu við Háskóla Íslands.

Lið frá Háskóla Íslands hefur tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema allt frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem keppnin Formula Student fer fram á hinni fornfrægu Silverstone-braut.

Í fyrra tók Team Spark í fyrsta sinn einnig þátt í Formula SAE Italy í Varano de' Melegari nærri Parma og náði þar þeim merka áfanga að uppfylla allar þær umfangsmiklu kröfur sem gerðar eru til rafknúinna kappakstursbíla svo að þeir megi aka á kappakstursbrautinni.

Förinni er aftur heitið til Ítalíu í ár en í stað keppninnar á Silverstone halda Team Spark liðar til Austurríkis þar sem liðið tekur þátt í Formula Student Austria sem fram fer á Formúlu 1 kappakstursbrautinni Red Bull Ring. Þar etur Team Spark kappi við um 50 lið frá háskólum beggja vegna Atlantsála bæði innan og utan brautar.

Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og undanfarin ár. 

Hönnun TS17 (Laka) hefur útheimt bæði blóð, svita og tár hjá liðsmönnum en sem fyrr leggur liðið áherslu á rafknúinn og umhverfisvænan bíl. Hönnunin byggist á hönnun bíls síðasta árs,

TS16, sem eins og fyrr segir ók um Formula-brautina í Varano de' Melegari og fékk sérstakt lof frá einum af forsprökkum Ferrari-liðsins í Formúlu 1 fyrir hugvitsamlega hönnun á vængjum. Liðsmenn Team Spark setja stefnuna áfram hátt í ár og hafa þeir gert nokkrar breytingar á milli ára. 

Aðspurð um nýjungar í bílnum segir Auður Guðjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Team Spark, að töluverðar endurbætur hafi verið gerðar á rafmagnskerfi bílsins. „TS17 (Laki) er styttri og léttari en forverar sínir og fyrsti bíll liðsins með fullbúinn loftaflfræðipakka,“ segir Auður.

Aðspurð segist hún bjartsýn fyrir keppnirnar í Austurríki og á Ítalíu og að hópurinn sé fullur eftirvæntingar. Markmið liðsins í ár sé að auka stigafjölda sinn frá síðasta ári í aksturshluta keppninnar.

Hún segir jafnframt að vinna við bílinn hefði ekki verið möguleg hefði ekki verið fyrir fjölmarga öfluga bakhjarla liðsins sem stutt hafi verkefnið með fjármunum og vinnu. Fyrir það séu Team Spark liðar afar þakklátir.

Fjölmargir bakhjarlanna voru viðstaddir þegar hulunni var svipt af nýja bílnum á Háskólatorgi og var umgjörð bílsins hin glæsilegasta.  Að lokinni afhjúpuninni kynntu félagar í Team Spark svo bílinn stuttlega en við athöfnina fluttu þeir Tryggvi M. Þórðarson, formaður stjórnar Akstursíþróttasambands Íslands, Örn Ingvi Jónsson, framleiðslustjóri Össurar og fulltrúi bakhjarla Team Spark, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, einnig stutt ávörp.