Afstaða ADAC í Þýskalandi til kílómetrasvindls
Víðs vegar í Evrópu er algengt að átt sé við kílómetramæla bíla. Þetta er mikið vandamál fyrir neytendur þar sem auðvelt er að skrúfa niður kílómetrateljarana. Í Þýskalandi einu áætlar ADAC (Samtök þýskra bifreiðaeigenda) að um tvær milljónir kaupenda notaðra bíla séu sviknir árlega og að það kosti þýska neytendur um sex milljarða evra.
ADAC gaf nýlega út stefnumörkun samtakanna vegna kílómetrasvindls.
Sífellt fleiri ökutæki í dag eru búin SIM-kortum sem gera varanlegan gagnaflutning til framleiðenda mögulegan. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skoðar nú þann möguleika að senda reglulega upplýsingar um akstursnotkun (kílómetrastöðu) ökutækja til stjórnvalda eða stofnunar innan Evrópu. ADAC telur slíkt úrræði ásættanlegt að uppfylltum eftirfarandi skilmálum:
- Bíleigandi getur ekki neitað tilflutningi þessara gagna til opinberra yfirvalda.
- Tryggja þarf að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd.
- Það þarf að verja gögnin með reglulegri afritatöku og koma í veg fyrir að fölsuð gögn séu send.
- Neytendur eiga ekki að bera neinn kostnað vegna þessara sendinga og gagnasöfnunar.
- Setja þarf samevrópska löggjöf og regluverk um það hver hefur rétt á og við hvaða aðstæður að biðja um upplýsingar um akstursstöðu ökutækis.