Áherslan á ölvunar- og hraðakstur
Í Svíþjóð hefur skipulagi löggæslumála verið breytt þannig að umferðargæsla er ekki lengur alfarið á forræði lögregluembætta einstakra sýslna eða léna, heldur lýtur umferðarlögreglan nú öll einni yfirstjórn. Breytingin hefur kallað á endurskoðun og samræmingu verklags sem á stundum hefur þótt vera breytilegt milli landshluta og -svæða.
Nú hafa menn komið sér saman um samræmt verklag við umferðareftirlit og -gæslu og hvaða atriði skuli framvegis vera helstu forgangsmál umferðarlöggæslunnar: Þau eru að taka sérstaklega á akstri undir áhrifum áfengis og annarra skynbreytilyfja og hraðakstri. Það er í góðu samræmi við slysatölfræðina í Svíþjóð sem sýnir að ölvun og of hraður akstur eru ýmist frumorsök eða meðorsök flestra banaslysa sem eiga sér stað í sænskri umferð. Við hvorutvegga á nú að bregðast með samræmdum hætti um alla Svíþjóð.
,,Það besta væri að við næðum sem oftast að koma í veg fyrir að drukkinn eða lyfjaður ökumaður nái yfirhöfuð að setjast undir stýri og aka af stað. En sé ölvaður ökumaður stöðvaður munum við framvegis tilkynna það, ekki bara til lögregluembættanna, heldur líka til annarra samfélagsstofnana sem við höfum samstarf við,” segir Lena Tysk lögreglustjóri í Västmanland við tímaritið Vi Bilägare .
Hún segir ennfremur að til að styrkja hinn fyrirbyggjandi þátt verði lögreglueftirlitið framvegis alla jafna vel sýnilegt, hvort heldur sem það er mannað eftirlit, t.d. í lögreglubílum eða ómannað (eftirlitsmyndavélar o.fl.). Varðandi hraðakstur segir lögreglustjórinn að mjög algengt sé að ökumenn aki lítilsháttar yfir tilgreindum hámarkshraða á einstökum vegaköflum. Þeir sem aka langt umfram hraðamörk og þar með algerlega úr takti við aðra umferð séu mun færri. En tölfræðin sýni of hátt hlutfall þeirra ökumannanna í slysum, sem kannski óku einungis ca.10 km yfir tilgreindum hámarkshraða. Því sé ætlunin að lækka umferðarhraðann niður í það sem hraðaskiltin mæla fyrir um og fylgja því vel eftir að hinir akandi virði hraðamörkin.