Aðrir rafbílar á eftirmarkaði munu lækka í veðri
Eftir að bílaframleiðandinn Tesla lækkaði verð á sínum bifreiðum um 20% í síðustu viku má allt eins búast við miklum verðlækkunum á notuðum bifreiðum. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að áhrifa þessa muni seytla um allan bílamarkaðinn með notaða bíla í samtali við RÚV.
Þessi lækkun sem Tesla greip til kemur til vegna svigrúms sem hafi skapast vegna hagkvmæni í framleiðslu en Tesla hefur stóraukið framleiðslu sína á síðustu mánuðum. Runólfur segir að Tesla hafi komið fram með með svokallaða gígaverksmiðju í Þýskaland og þá er ennfremur styttra varðandi alla aðdrætti og flutning á bílum inn á evrópska markaði. Tesla hafi því möguleika á að framleiða bæði ódýrara og bjóða þá í leiðinni neytendum upp á ódýrari bifreiðar. Ljóst má hins vegar vera að verðlækkunin muni eflaust hafa gríðarleg áhrif á markaðinn.
Mun hafa áhrif á markaðinn í heild sinni
,,Þetta mun strax skila sér í lækkun á eftirmarkaði með notaðar Teslur og svo munu aðrir rafbílar á eftirmarkaði lækka í veðri. Þetta mun hafa áhrif á markaðinn í heild sinni,“ sagði Runólfur Ólafsson.
Spennandi verður að fylgjast með þróuninni á bílamörkuðum á næstu mánuðum. Skortur á íhlutum og bíðtími hefur lengst. Samt sem áður gekk bílasala hér á landi vel á síðasta ári og fer ágætlega af stað á nýja árinu. Eftirspurnin eftir rafbílum heldur áfram að aukast. Alls voru nýskráningar fólksbifreiða á síðasta ári 16.685 en árið þar á undan, 2021, voru þær 12.789. Sala jókst því um 30,5% miðað við sölu nýrra fólksbíla árið 2021.
Hlutfall orkugjafa seldra nýrra fólksbifreiða 2022 var mest í hreinum rafmagnsbílum, alls 33,5%. Tengiltvinnbílar komu þar á eftir með 22,6% hlutdeild og hybrid 17,8%. Dísilbílar voru með 14,2% hlutdeild og jókst aðeins á milli ára og bensínbílar voru með 11,9% hlutdeild.