Áhrifa verkfallsins mun gæta fljótt
Verkfall hjá yfir 70 flutningabílstjórum sem eru í Eflingu – stéttarfélagi og starfa hjá Olíudreifingu, Samskipum og Skeljungi hefst á hádegi á miðvikudag, 15. febrúar, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Talið er að áhrifanna af aðgerðunum muni gæta fljótt. Ef fólk fer að hamstra eldsneyti gæti það þó gerst fyrr. Þá muni það taka marga daga fyrir birgðastöðu bensínstöðvanna að komast í eðlilegt horf aftur ef þær tæmast.
Olíudreifing sér um flutninga á eldsneyti á þjónustustöðvar N1 á höfuðborgarsvæðinu og út frá því austur á Kirkjubæjarklaustur og norður í land, að Snæfellsnesi og Vestfjörðum frátöldum. Hjá bæði Olíudreifingu og Skeljungi mun verkfallið hafa lítil áhrif á Austurlandi því bílstjórar þar eru ekki í Eflingu og olíuskip koma beint til Austfjarða. Flutningar með Keili, olíuskipi Olíudreifingar, eiga að verða eðlilegir.
Fyrirtækið er með birgðastöðvar á Höfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði og Reyðarfirði. Almennir viðskiptavinir þar og fyrirtæki á borð við útgerðir eigi ekki að verða fyrir neinum skakkaföllum vegna verkfallsins.
Ef það kemur til þess að félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Olíudreifingu fara í verkfall, þá kemur Olíudreifing ekki lengur með eldsneyti á bensínstöðvarnar og þá líða bara nokkrir dagar þangað til flestar þeirra eru orðnar tómar og fólk getur ekki fengið eldsneyti á bílinn sinn.
Fyrirhugað verfall muni hafa verulega íþyngjandi áhrif
Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, segir við FÍB að fyrirhugað verfall muni hafa verulega íþyngjandi áhrif á alla starfsemina hér á Eflingarsvæðinu, og reyndar víða. Við dreifum eldsneyti alveg upp í Borgarfjörð og austur á Krikjubæjarklaustur. Ef í það versta fer þá leggst þessi dreifing öll af á hádegi á miðvikudag. Sagan segir manni nú það að þegar nær dregur þá komist meiri hreyfing á samningsmálin. Hvort það er orðinn of skammur tími er ekki gott að segja til um,“ segir Hörður.
Aðspurður hvort verkfallið hefði áhrif út í hinar dreyfðu byggðir landsins sagði Hörður svo ekki verða. Þetta hefur einvörðungu áhrif á það sem dreift er út frá Reykjavík. Þetta er samt örlítið flókið.
,,Bensíni er t.d dreift héðan vestur á firði og þá mun koma til bensínskorts á Vestfjörðum. Aftur á móti siglum við með gasolíuna og fyrir vikið verður ekki gasolíuskortur á Vestfjörðum. Frá Blönduósi og austur um, frá Vopnafirði til Hornafjarðar verður ástandið óbreytt. Á Snæfellsnesinu verður heldur engin breyting. Ef til verkfallsins kemur bitnar það einna helst á íbúum höfuðborgarsvæðisins,“ segir Hörður.
Spurður hvort hægt yrði að nálgast eldsneyti t.d á Selfossi ef til verfalls kemur. Mögulega en við erum með bílstjóra þar sem eru í Verkalýðsfélaginu Bárunni.
,,Þeir eru strangt til tekið ekki í verkfalli og munu halda uppi einhverri dreifingu héðan frá Reykjavík og á Selfoss.“
Talið er að fyrstu bensínstöðvarnar muni tæmast innan 2-3 sólarhringa eftir að verfall hefst. Hörður segir að það muni taka marga daga fyrir birgðastöðu bensínstöðvanna að komast í eðlilegt horf aftur ef þær tæmast á annað borð.
Rafmagns- og tengiltvinnbílar
Samkvæmt samgöngustofu eru skráðir tæplega 18.700 hreinir rafbílar og 20.500 tengiltvinnbílar í landinu. Eigendur þessarra ökutækja verða ekki fyrir sömu áhrifum í komandi verkfalli og eigendur jarðefnaeldsneytisbíla.