Akstursíþróttir og -æfingar á gamla varnarsvæðinu

http://www.fib.is/myndir/MakeRoadsSafe.jpg
Frá því að bandaríska varnarliðið yfirgaf varnarstöðina á Miðnesheiði hefur vaknað áhugi fyrir því að nota mannlaust varnarsvæðið að einhverju leyti til kennslu í akstri og jafnvel til keppni í akstursíþróttum. Ólafur Guðmundsson varaformaður FÍB og stjórnarmaður í LÍA kom manna fyrstur auga á þessa möguleika og í fyrstu starfsviku Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í nóvember sl. fór hann ásamt forseta LÍA á fund forráðamanna félagsins til að skoða hvaða möguleikar fyrirfyndust fyrir akstursíþróttir og aksturskennslu á gamla varnarsvæðinu.

Í framhaldi af þessum fundi sameinuðust FÍB, LÍA og Umferðarstofa um að senda formlega beiðni um keppnishald í akstursíþróttum á svæðinu og hefur jákvætt svar borist við erindinu. Í framhaldinu er ætlunin að standa fyrir keppnisviðburðum þarna suðurfrá í sumar, einkanlega í grein sem kallast Drift. Einnig er í athugun hvort mögulegt verður að halda keppni í mótorhjólaíþróttum og hvers konar þá.

Til þessa hefur sáralítil aðstaða til æfinga og keppni í akstri fyrirfundist hér á landi en á því er að verða breyting því framkvæmdir eru komnar í fullan gang við mikið akstursæfinga- og keppnissvæði í Reykjanesbæ. Go-Kart braut verður þar tilbúin þegar á þessu ári og í framhaldinu verður gert fullkomið keppnissvæði á heimsvísu. Þörf fyrir aðstöðu af þessu tagi hefur lengi verið brýn og aðkallandi og vonast er til að sú bráðabirgðaaðstaða sem nú er að opnast innan gamla varnarsvæðisins stytti nokkuð biðina eftir fullkomnu æfinga- og keppnissvæði fyrir akstursíþróttir. Vonast er til að sú aðstaða sem þarna opnast verði til þess að mæta þörfum þeirra sem hingað til hafa fengið keppnisþörfum sínum útrás á götum og vegum innan um almenna umferð. Ef því ófremdarástandi linnir með þessu frumkvæði, þá verður framhaldið mun auðveldara.

Nú fer undirbúningur senn á fullt, en ætlunin er að halda keppni þarna suðurfrá laugardaginn 28. apríl í lok umferðaröryggisviku Sameinuðu þjóðanna, sem verður sérstaklega helguð ungum ökumönnum. Umferðarráð mun standa að dagskrá þessa viku, (23.-29. apríl) sem markar upphaf alþjóðlega umferðaröryggisátaksins Make Roads Safe eða gerum vegina örugga. Make Roads Safe átakið er til orðið fyrir frumkvæði FIA – alþjóðasamtaka bifreiðaeigenda- og bifreiðaíþróttafélaga og stendur út árið. Mesti Formúluökumaður allra tíma; Michel Schumacher er í stjórn átaksins en formaður þess er Lord Robertson fyrrv. utanríkisráðherra Bretlands.

Hægt er að fræðast meir um átakið Make Roads Safe á heimasíðu þess hér .