Al Attiyah sigraði í Dakarrallinu

Volkswagen liðið vann þrefaldan sigur í Dakarrallinu sem lauk í gær, sunnudag. Carlos Sainz sem var sigurstranglegur framan af keppninni endaði í þriðja sæti. Í öðru sætinu varð Giniel de Villiers og Nasser Al Attiyah er sigurvegari ársins. Myndin er af þeim Nasser Al Attiyah tv. og Carlos Sainz.

 BMW  X-Raid liðið batt talsverðar vonir við keppnina en aðalökumaður liðsins; Stephane Peterhansel margfaldur Dakar-sigurvegari, hafnaði í fjórða sætinu og kom klukkutíma og þremur korterum seinna í mark en sigurvegarinn.

 En Volkswagen lagði gríðarlega mikið í rallið að þessu sinni. Í starfsliði VW í keppninni voru rúmlega 120 manns. Tvær þyrlur og sex mjög vel búnir þjónustubílar fylgdu keppendum eftir og á áfangastöðum keppninnar voru nokkrir vörubílar sem hlaðnir voru varahlutum, verkfærum og búnaði.  Á sérhverjum áfangastað var skipt um mikilvægustu slithluti bílanna til að reyna að tryggja að þeir kæmust sem klakklausast gegn um áfangana. Ljóst er því að úthaldið hefur kostað hundruð milljóna króna.

 Ekki er langt síðan þær fregnir bárust frá stjórn Volkswagen að ætlunin væri að hætta að senda lið í Dakar rallið frá og með þessari keppni. Talið er að sigurinn nú verði til þess að þær fyrirætlanir verði endurskoðaðar.

 Lokastaða:

1. Nasser Al-Attiyah Volkswagen 21.16,16
2. Giniel de Villiers Volkswagen + 49,41
3. Carlos Sainz Volkswagen + 1.20,38
4. Stephane Peterhansel BMW + 1.4348
5. Krzysztof Holowczyc BMW + 4.11,21
6. Mark Miller Volkswagen + 4.54,42
7. Ricardo Leal dos Santos BMW + 6.50,07
8. Christian Lavieille Nissan + 7.57,18
9. Guilherme Spinelli Mitsubishi + 8.23,37
10. Matthias Kahle SMG + 15.11,56