Al-Attyah og Tina Thörner rekin úr keppni
Tina Thörner og Al-Attyah við upphaf Dakarrallsins.
BMW-ökumaðurinn knái Nasser Al Attiyah og Tina Thörner aðstoðarökumaður hans eru fallin úr keppni í Dakarrallinu eftir að hafa veitt keppninni forystu um skamma hríð. Þau höfðu staðið sig afar vel en ýmislegt fór úrskeiðis hjá þeim í gær. Seint í gærkvöldi felldu svo dómarar keppninnar þann úrskurð að fella þau úr keppni.
Fyrir rúmum tveimur dögum tók að bera á vélarbilun í keppnisbíl þeirra sem er BMW X3 CC. Vélin tók þá upp á því að hitna. Á sérleið gærdagsins færðist bilunin í aukana en grunur leikur á að sprunga sé í heddi vélarinnar sem valdi þessu. Eftir fárra kílómetra akstur tók vélin að hitna mjög. Kafli sérleiðar gærdagsins lá um mjög erfiða eyðimerkursandhóla og –öldur og í stað þess að aka þar um tóku þau Al-Attyah og Törner á það ráð að krækja fyrir mestu torfæruna, en við það misstu þau af fimm leynilegrum eftirlitsstöðvum og það gerði útslagið.
Suðurafríkubúinn Giniel de Villiers á Volkswagen náði besta tímanum á sérleið gærdagsins og Bandaríkjamaðurinn Mark Miller, einnig á Volkswagen, öðrum besta tíma. Í þriðja sæti varð Carlos Sainz á Volkswagen. Staðan í keppninni eftir gærdaginn er þessi:
Sæti Keppendur Teg. Tími Frávik
1. DE VILLIERS (S.Afr)/ VON ZITZEWITZ (Þýs.) VW 20:59:34 00:00:00
2. SAINZ (Sp.) / PERIN (Fr.) VW 21:07:13 00:07:39
3 . MILLER (USA) / PITCHFORD (S. Afr.) VW 21:17:25 00:17:51
4. ROMA (Sp.) / CRUZ SENRA (Sp.) MITSUBISHI 21:30:52 00:31:18
5. PETERHANSEL (Fr.) / COTTRET (Fr.) MITSUBISHI 21:34:01 00:34:27
Alls verða eknir í dag 816 km til vesturs yfir Andesfjallgarðinn og niður á vesturströnd Chile.