Al-rafknúinn bíll með fjórum mótorum
EZ-MIEV - sýndur í Genf um þessar mundir.
Öll stjórntæki í farþegaflugvélum nútímans eru raf- og tölvustýrð. Engin bein tengsl eru lengur milli handfanga og fótstiga í stjórnklefum vélanna við hliðar- og hæðarstýri eða vængflipa. Stjórntækin eru í rauninni svipuð og stjórntæki tölvuleikjanna, þau senda rafboð til móttökustöðva sem hleypa síðan straumi á raf, eða vökvamótora sem hreyfa það sem hreyfa á. Nú er búnaður af þessu tagi að byrja að ryðja sér til rúms í bílum og á bílasýningunni í Genf sem senn hefst sýnir Mitsubishi hugmyndarbílinn EZ-MIEV (Mitsubishi In-wheel Electric Vehicle) sem algerlega er byggður eins og nútíma flugvél að þessu leyti, öll stjórntækin eru í raun tölvurofar, rafmótorar eru við hvert hjóla bílsins og knýja hann áfram og þeir sækja strauminn í Líþíum-jónarafhlöður sem eru í tvöföldu milligólfi bílsins.
Þessi bíll er á sinn hátt vísbending um hvernig algengir borgarbílar gætu litið út eftir nokkur ár. Þessi tiltekni hugmyndarbíll er hannaður í Evrópu-hönnunarmiðstöð Mitsubishi og með honum vilja hönnuðirnir sýna hvernig rými bílsins gæti nýst þegar ekki er lengur hefðbundinn mótor í bílnum, engin stýrisvél, gírkassi, mismunadrif og þessháttar og öll aflfærsla vegna drifs og stýris er um rafmagnsleiðslur og rafrásir. Við það losnar mikið rými sem nýta má á nýjan og allt annan hátt en nú er gert.
EZ hugmyndarbíllinn er sem fyrr segir með fjóra rafmótara í hverju hjólanna. Hver mótor um sig er 27 hestöfl. Stýrishjólið er einungis tengt við mótstöðurofa sem virkar svipað og hækkunar- og lækkunartakki á útvarpstæki. Sjálfur rofinn er mjög fyrirferðarlítill og er stýrishjólið í raun lang fyrirferðarmesti hluti stýrisbúnaðarins inni í bílnum. Þegar bíllinn er ekki í akstri má einfaldlega taka stýrishjólið og -búnaðinn í burtu og þar sem stólarnir eru þannig búnir að þeim má snúa og stilla allavega, má breyta innanrými bílsins á augabragði í nokkuð rúmgóða setustofu, borðstofu eða fundarherbergi enda þótt heildarlengd bílsins sé einungis 3,7 metrar.