Álagning á bílaeldsneyti
Í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi var fjallað um álagningu olíufélaga á eldsneytið. Forstjóri N1 kvaðst í fréttinni ekki botna í útreikningum FÍB, en skýrði þó ekki frekar hvað væri honum óskiljanlegt eða rangt í þeim að hans mati. Tekið skal fram af því tilefni og fleirum svipuðum, að FÍB stendur við orð sín og útreikninga sem fyrr.
Á línuritinu sem hér fylgir sést hvernig álagning á bensín og dísilolíu hefur vaxið frá 2005. Um er að ræða meðaltal hvers árs frá 2005 til 2008 og síðan janúar og það sem eftir var af febrúar 2009 þegar gengið var frá nýjustu tölunum. Dökkgræna og dökkrauða línan eru með virðisaukaskatti en þær ljósari undir eru án virðisauka.
Staðreynd er að álagningin hefur vaxið hressilega. Bensínálagningin stóð í stað 2006 og hefur ekki verið að vaxa í upphafi þessa árs. Álagningin á dísilolíu var lengstum framan af minni en á bensíni en hefur aukist hressilega samfara aukinni sölu á dísilbílum.
Meðaltalsálagning með flutningskostnaði á dísilolíu hefur vaxið úr 21 krónu í 39 krónur. Bensínið hefur á sama tíma farið úr 24 krónum á lítra í 32 krónur á lítra. Allar tölur eru uppreiknaðar til núvirðis með vísitölu neysluverðs.
Aukinn kostnaður neytenda í þessum samanburði út frá árlegri notkun á eldsneyti til ökutækja (ef þessi álagning helst út árið) og þá miðað við álagninguna 2005 annars vegar og það sem af er 2009 hins vegar er yfir 4.000 m.kr. – fjórir milljarðar.
FÍB gerir sér vel grein fyrir því að flutningskostnaður hefur aukist og líklega umfram vísitölu og að olíufélögin hafa verið og eru að bjóða ýmsa viðbótarafslætti. Eftir sem áður þá er það ljóst að uppreiknaður kostnaður neytenda vegna hærri álagningar á bílaeldsneyti stefnir í yfir 3 milljarða kr. á þessu ári að óbreyttu samanborið við 2005.