Álagning eldsneytis í júlí slær met
Í framhaldi af frétt á FÍB vefnum í síðustu viku um okur álagningu á eldsneyti hér á landi hefur eldsneytisverð lækkað bæði hér á landi og í Danmörku. Það er rétt að á sama tíma og verð á heimsmarkaði hefur lækkað hefur gengi íslenskrar krónu gagnvart Bandaríkjadal lækkað. Meðalgengið í júlí er 4,2% yfir meðalgenginu í júní. Á sama tíma hefur meðal heimsmarkaðsverð á bensíni í Norður-Evrópu, það sem af er júlí, fallið um 16% samanborið við meðal kostnaðarverð í júní.
Lækkunin á íslenska markaðnum hefur verið frá 1,50 krónum upp í 1,70 krónur á lítra af bensíni á dýrari útsölustöðunum eða úr 344,9 krónum hjá N1 niður í 343,2 krónur. Mesta bensínlækkunin var á ,,ódýrari” stöðvunum hjá Atlantsolíu eða 4,8 krónur á lítra. Reyndar var Atlantsolía þar með að fara niður í sambærileg verð og eru hjá ÓB og Orkunni sem lækkuðu um 1,7 til 1,8 krónu á sama tíma.
Díslilítrinn hjá olíufélögunum hefur lækkað heldur meira eða frá 2,9 krónum á lítra í 4,2 krónur. Sem dæmi þá er algengasta dísillítraverðið hjá N1 núna 337,9 krónur en var 340,9.
Það er athyglisvert að sjá að verð á bensín- og dísillítranum hefur ekkert hreyfst hjá Costco frá miðjum júlí. Munurinn á milli Costco og ,,ódýru” stöðvanna hefur sjaldan verið minni og spurning hvort álagningarstefnu Costco hefur verið breytt til að aðlagast betur fákeppninni á íslenska markaðnum.
Þessi viðbrögð íslensku félaganna er langt undir verðbreytingum á sama tíma á danska markaðnum. Bensínlítrinn hjá Q8 í Danmörku hefur lækkað um 0,40 DKK eða 7,50 íslenskar krónur og dísillítrinn um 0,60 DKK sem er ríflega 11,20 krónur íslenskar. Lækkunin á danska markaðnum er sem fyrr í samræmi við verðbreytingar á heimsmarkaðsverði á bensíni og dísilolíu á Norður-Evrópumarkaði.
Nýlega birti Kjarninn athyglisverða fréttaskýringu um olíumarkaðinn. Þar segir m.a. : ,,Hærra bensínverð er einn af þeim þáttum sem drífa áfram verðbólgu, sem mælist nú 9,9 prósent. Til að reyna að hemja hana hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína skarpt á skömmum tíma, upp í 4,75 prósent, og væntingar eru um að það hækkunarferli haldi áfram í næsta mánuði.”
Mun fákeppni með olíu á Íslandi verða hvati til stjórnvalda um opinbert verðlagseftirlit á viðskipti með þessa nauðsynjavöru þar sem olíufélögin virðast ekki kunna sér hóf?
Þetta línurit sem fylgir fréttinni er frá Hagstofu Íslands og sýnir glögglega þá freystingu að halda uppi hárri álagningu á eldsneyti yfir sumarmánuðina. Júlí er nokkuð árvist metsölumánuður í magni.