Álagning íslensku olíufélaganna er sú hæsta á norðurhjara veraldar
Bensínverð hefur ekki verið hærra hérlendis frá árinu 2014. Samkeppnin er þó orðin meiri en áður en bílaeigendur geti sparað sér allt að sjötíu þúsund krónur á ári með því að beina viðskiptum að ódýrustu aðilanum. Þetta kemur fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, á vefmiðlinum visir.is
Fram kemur að meðalverð á bensíni í dag sé um 234 krónur lítrinn og eru fjögur og hálft ár síðan verðið var svo hátt. „Í október 2014 og þá vorum við með lítraverð í kring um svipað og það er núna,“ segir Runólfur Ólafsson.
Runólfur segir að á þeim tíma hafi kostnaðurinn á heimsmarkaði fyrir hvern lítra þó verið átta til níu krónum hærri.
„Álagningin er svipuð þannig við erum að sjá að mismunurinn er hækkun skatta á þessu tímabili,“ segir Runólfur.
Þá sé veiking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal og heimsmarkaðsverð á olíu það sem hafi áhrif á þróunina. „Og svo jú álagning olíufélaganna og við búum enn við það að álagning íslensku olíufélaganna er sú hæsta á norðurhjara veraldar,“ segir Runólfur.
Hæsta bensínverð á landinu í dag er hjá N1, þar sem lítrinn kostar 237 krónur.
Umfjöllunina á visir.is og viðtalið við Runólf má nálgast hér.