Álagning olíufélaganna hækkar og hækkar
Skeljungur, N1 og Olís hafa hækkað bensínið um 1.50 krónur - og dísilolíuna um 2 krónur á lítra. Bensínið kostar þá með þjónustu 134.70 krónur hver lítri og dísilolían 135.40 krónur. Dísilolían hefur aldrei verið dýrari til íslenskra neytenda og bensínið hefur ekki verið í hærra verði það sem af er þessu ári.
Undanfarið hafa verið fréttir um hækkun á hráolíu á heimsmarkaði en þegar aðeins dregur úr þeirri þróun (sjá frétt hér undir) þá hækkar eldsneytið á Íslandi.
Þrátt fyrir þessa þróun á heimsmarkaði varðandi hráolíuna þá var kostnaðarverð á hvern lítra af bensíni í október lítilega lægra en meðalkostnaðarverð bensíns yfir árið. Kostnaðarverð dísilolíu var hinsvegar um 3.30 krónum hærra á hvern lítra samanborið við meðalverð ársins af því eldsneyti. Gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur haft mikið að segja því dollarinn hefur sjaldan verið jafn veikur og um þessar mundir.
Neytendur borguðu 5.60 krónur í hærri álagningu af bensíni í október samanborið við meðalálagningu ársins. Munurinn var minni vegna kaupa á dísilolíu eða 1.40 krónur á lítra.
Á línuritinu hér fyrir neðan má sjá þróun kostnarverðs á bensíni og dísilolíu á Rotterdam markaði og kostnað íslenskra neytenda vegna álagningar og flutnings á þessum dýru dropum.
Álagningin á bensínið lækkaði í febrúar og mars og apríl en hefur farið hröðum skrefum upp síðan. Kostnaður neytenda vegna álagningar á bensín var yfir 11 krónum hærri í október samanborið við lægstu álagninguna í apríl. Þessi álagningarmunur yfir eitt ár er 2.2 milljarðar króna.