Álagningu vanrækslugjalda vegna skoðunar ökutækja frestað að nýju
Álagningu vanrækslugjalds 1. apríl og 1. maí vegna skoðunar ökutækja verður frestað til 1. júní vegna COVID-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest ákvörðunina með reglugerð sem birt verður í Stjórnartíðindum í dag.
Ákveðið var að framlengja fyrri ákvörðun um frestun álagningar vegna aðstæðna í samfélaginu í tengslum við útbreiðslu Covid-19 kórónaveirunnar.
Samkomubann hefur verið í gildi og ekki verður létt af fyrstu takmörkunum fyrr en 4. maí. Þá hafa margar skoðunarstöðvar verið með skerta afgreiðslu eða lokaðar vegna ástandsins.
Álagningin 1. apríl og 1. maí hefðu tekið til eigenda þeirra bifreiða sem hafa 1 og 2 í endastaf og hefðu því átt að láta skoða ökutæki sín í janúar og febrúar.
Álagningin tekur einnig til þeirra sem fóru með ökutæki í skoðun sömu mánuði og áttu að fara í endurskoðun skv. ákvörðun skoðunarmanns ekki síðar en í lok febrúar (1) eða lok mars (2). Álagningu þessara gjalda verður því frestað til 1. júní.