Aldursskráning bifreiða
Um 14 ár eru síðan nýskráningu bíla í bifreiðaskrá var breytt, neytendum í óhag. Það voru bifreiðaumboðin sem þrýstu á um þessa breytingu. Skráning hafði fram til þess tíma verið þannig að skráð var árgerð bílsins og fyrsti skráningardagur og stundum smíðaár. En samkvæmt nýju reglunum dugði að tilgreina einungis fyrsta skráningardag.
Breytingin var því mjög til hins verra því þótt árgerð sé alls ekki traust heimild um aldur bíls, þá er hún þó skárri en ekkert. Nýjar árgerðir koma yfirleitt fram síðla sumars eða snemma að hausti (í ágúst-október) og eru þær þá kenndar við næsta ár á eftir. Þannig eru t.d. árgerðir 2013 flestar hverjar þegar komnar fram eða eru væntanlegar á næstu dögum. Bílaframleiðendur undirbúa sig fyrir árgerðaskiptin þannig að byrjað er að framleiða nýju árgerðina snemma árs, jafnvel fljótlega upp úr áramótum til að vera búinn að byggja upp lager af nýju árgerðunum svo hægt sé að hefja sölu jafnvel strax í ágúst eða september. Þannig getur bíll af tiltekinni árgerð og nýskráður á árgerðarárinu hæglega verið hátt í árs gamall á fyrsta skráningardegi.
Þegar skráningarreglurnar frá því fyrir 14 árum voru í smíðum krafðist FÍB þess að í stað þess að draga úr veigamiklum upplýsingum til neytenda um bíla í bifreiðaskrá, bæri að auka við þær. Ekki væri verjandi að endurnýja ófullnægjandi reglur yfir í nýjar og verri. En yfirvöld þessara mála neituðu því og héldu því jafnvel fram að Evrópulöggjöf bannaði að skrá framleiðslumánuð eða framleiðsluár bíla í skrána. Menn ákváðu að aðeins eitt atriði væri nóg að tiltaka sem bent gæti til aldurs bifreiða og það væri einmitt það sem minnstu máli skipti –hvenær bíllinn hefði verið fyrst skráður – ekki árgerð, ekki framleiðsluár eða –mánuð.
Þegar reglugerðarbreytingin til hins verra var á döfinni ritaði FÍB bréf til ráðherra um málið. Helstu rök FÍB koma þar skýrt fram og þau eru enn í fullu gildi. Bréfið fer hér á eftir:
Skráning ökutækja
Skráning ökutækja þar sem fram kemur árgerð og/eða framleiðsluár bifreiða er í samræmi við hefð á markaði hérlendis. Allur bifreiðafloti landsmanna er skráður með þeim hætti. Aldursgreining bifreiða eftir árgerð eða hönnunarári hefur verið ráðandi markaðsviðmiðun hér á landi og víðar m.a. á Bretlandseyjum, í Svíþjóð og Noregi.
Breyting á núverandi skráningarkerfi skapar óvissu og dregur úr öryggi neytenda. FÍB hefur alltaf verið fylgjandi því að sem ítarlegastar upplýsingar séu fyrirliggjandi um uppruna og aldur bifreiða. Æskilegt væri að skrá einnig framleiðslumánuð bifeiða til viðbótar við það sem þegar er skráð.
Fyrsti skráningardagur er alls ófullnægjandi viðmiðun varðandi aldur bifreiðar. Bifreið sem staðið hefur ónotuð mánuðum eða árum saman í tollgirðingu er og verður önnur vara en bifreið sem fer á skömmum tíma út úr verksmiðju í upprunalandi til kaupanda hér á landi. Vandamál geta komið upp í bifreiðum sem staðið hafa ónotaðir utan dyra í langan tíma má m.a. nefna tæringu í yfirbyggingu og burðarvirki, ónýtar legur og bilun í rafkerfi.
Varahlutasalar hér á landi sem selja varahluti í samkeppni við bifreiðainnflytjendur benda á að í sumum tilvikum sé ekki nægjanlegt að hafa verksmiðju- eða vélarnúmer bifreiðar til varahlutaútvegunar. Í handbókum varahlutaframleiðenda sem eru óháðir ökutækjaframleiðendum eru upplýsingar um árgerð og framleiðslutíma mikilvæg vísbending varðandi varahlutaútvegun. Ákveðnir bifreiðaframleiðendur hafa á seinni árum takmarkað aðgengi leikmanna og þeirra sem ekki eru innan umboðs- og /eða sölunets viðkomandi framleiðenda að upplýsingum, sem hægt er að lesa út úr verksmiðjunúmeri. Ófullnægjandi upplýsingar draga úr valmöguleikum neytenda og eru samkeppnishindrandi. Upplýsingaskortur getur valdið því að neytandinn telji sig eiga þann eina kost að afla varahluta hjá bifreiðaumboði. Bifreiðaeigendur á landsbyggðinni sem búa fjarri sérhæfðum varahlutasölum eru hvað þetta snertir í verstu aðstöðunni.