Alfa með Porsche vélar?

http://www.fib.is/myndir/Alfasud.jpg
Alfa Romeo Alfasud. Fyrri
myndin er af boxervélinni
sem í þessum bíl var.

Í bílaheiminum hefur sá orðrómur verið á kreiki að Fiat vilji losa sig við Alfa Romeo og að Volkswagen vilji kaupa. Þótt Sergio Marchionni forstjóri Fiat / Chrysler neiti þessu alfarið þá virðist talsvert til í orðróminum því að innan Volkswagen samsteypunnar segja heimildir að Porsche ætli að framleiða nýjar fjögurra strokka Boxervélar fyrir Alfa Romeo. Þessi nýi boxermótor er annars hugsaður í nýjan sameiginlegan tveggja sæta sportbíl Volkswagen og Porsche og jafnvel Skoda og Seat líka. VW sportbíllinn er væntanlegur á markað 2013 og Porsche systurbíllinn 2014.

Ferdinand Piëch stjórnarformaður VW og dóttursonur Ferdinants Porsche stofnanda Porsche og hönnuðar gömlu VW bjöllunnar hefur lýst yfir áhuga sínum á Alfa Romeo og sagt að Volkswagen geti auðveldlega fjórfaldað sölu á Alfa Romeo á fimm árum. Þegar Marchionni sagði í framhaldinu að Alfa væri alls ekki til sölu sagði Piëchs einfaldlega: „Við höfum efni á að bíða.“  Og óneitanlega myndi það passa VW ágætlega að kaupa Alfa því að stjórnendur VW hafa lýst því yfir að VW ætli að verða stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar fyrir árið 2018. Í ofanálag þá býr VW svo vel að eiga ónotaða framleiðslugetu, aðallega hjá Seat á Spáni.

Boxervélar eru fáséðar í bílum þessi árin. Einungis Subaru framleiðir bíla með slíkum vélum nú. Boxervélar hafa verið algengari og eins og margir muna var VW bjallan gamla með loftkældum boxermótor. Þá var Alfa Romeo Alfasud sem framleiddur var á árunum 1971-1989 með boxervélum. Alfasud þótti afbragðsvel hannaður bílll og einstaklega skemmtilegur í akstri. Ekki var hins vegar mjög vandað til bílsins og þótti hann bilanagjarn og ryðsækinn.