Alger umskipti hjá Chevrolet
EuroNCAP birti í gær niðurstöður áreksturs- og öryggisprófunar á 12 bílum. Tíu þessara bíla hlutu hæstu einkunn – fimm stjörnur, einn hlaut fjórar og einn einungis þrjár.
Nýjar rannsóknir hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að það sem einna helst ræður því hvaða bíla neytendur velja er áreiðanleiki bílategundanna, það er að segja hversu vel framleiðandinn vandar til bílsins og hversu sterkur hann er. Þær niðurstöður sem nú birtast koma bæði þægilega á óvart en valda líka vonbrigðum enda eru þær sumar hverjar algerlega á skjön við það sem búast hefði mátt við í ljósi reynslunnar.
Dæmi um þetta er Chevrolet, áður Daewoo frá Kóreu. Árið 2006 komst Chevrolet Aveo á forsíður heimsblaðanna þegar hann hlaut eina gegnumstrikaða stjörnu í áreksturs- og öryggisprófi EuroNCAP. Á þeim þremur árum sem síðan eru liðin hafa verkfræðingar og öryggisfræðingar Chevrolet unnið lofsvert starf við það að auka öryggi bílanna. Hinn nýi Chevrolet Cruze sem nú var árekstursprófaður hlýtur fullt hús stjarna. Fyrir vernd fullvaxinna í bílnum fær hann nánast fullt hús stiga eða 96%. Svipaða sögu er að segja af Chevrolet Spark sem hlaut fjórar stjörnur en eiginlega missti af þeirri fimmtu vegna þess að ESC stöðugleikastýring er ekki staðalbúnaður í öllum undirgerðunum.
En þá er það jepplingurinn Toyota Urban Cruiser. Toyota hefur átt hvern fimm stjörnu bílinn eftir annan um langt skeið; Hinn nýi Avensis og IQ hlutu fimm stjörnur fyrr á þessu ári og svo auðvitað hinn nýi og sparneytni Prius sömuleiðis. Urban Cruiser jepplingurinn sker sig úr í dag, með einungis þrjár stjörnur sem hlýtur að valda miklum vonbrigðum. Það er einkum slakur árangur bílsins við vernd fullorðinna sem fellir þennan bíl. Í þeim þætti hlaut Urban Cruiser einungis 58 prósent stiga.
„Við óskum Chevrolet sérstaklega til hamingju. Fyrirtækið kemur mjög sterkt inn úr kuldanum með tvo svo örugga bíla að til fyrirmyndar er,“ segir Dr Michiel van Ratingen stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Euro NCAP. Hann segir hins vegar árangur Toyota nú valda vonbrigðum.
Dr. Ratingen segir að neytendur sem eru í bílakaupahugleiðingum ættu ávallt að skoða niðurstöður öryggisprófana með því að fara inn á vefinn www.euroncap.com en láta ekki væntingar sínar tll einstakra bílaframleiðenda og bílategunda ráða vali sínu á nýjum bíl. Niðurstöðurnar nú sýna skýrt að það er ekki einhlítt að þeir sem mikils er vænst af standi undir væntingunum og öfugt. Öryggisprófið nú er það strangasta sem hingað til hefur verið gert og þar sem stöðugt er verið að herða þær kröfur sem EuroNCAP vinnur samkvæmt, skal fólki bent á að huga að því hversu langt er síðan viðkomandi öryggispróf var framkvæmt.
Þeir bílar sem fimm stjörnur hlutu að þessu sinni í öryggisprófi Euro NCAP eru BMW X1, Chevrolet Cruze, Citroën DS3, Infiniti FX, Mazda 3, Mercedes E-Class, Mercedes GLK, Opel Astra, Peugeot 5008 og Volkswagen Scirocco. Sá fyrirvari er settur við fimmtu stjörnuna hjá Chevrolet Spark er að ESC stöðugleikabúnaður (Electronic Stability Control - ESC) er ekki staðalbúnaður í öllum undirgerðum bílsins. Samkvæmt nýjustu vinnureglum EuroNCAP er þessi búnaður nú skilyrði þess að bíll geti hlotið fimm stjörnur.
Sérstaklega skal bent á að Chevrolet Cruze, hin nýja kynslóð Opel Astra og Volkswagen Scirocco eru allir með búnað í sætum og við hnakkapúða sem bregst við í árekstri til að verja fólkið í bílnum sérstaklega fyrir hálshnykksmeiðslum. Þessir bílar veita sérstaklega góða vörn gegn hálshnykksmeiðslum.
Í Citroën DS3, Infiniti FX, Peugeot 5008 og Mercedes GLK er hjálparbúnaður fyrir ökumenn sem grípur sjálfvirkt inn og hægir á bílnum þegar akstursaðstæður gerast varasamar. Búnaður þessi er ýmist staðalbúnaður í fyrrnefndum bílum eða verður það innan tíðar. Búnaðurinn er til mikillar hjálpar fyrir ökumanninn við að halda hraðanum innan öruggra marka í samræmi við akstursskilyrði hverju sinni.