Allar bílgerðir Jaguar Land Rover með rafmótor frá áramótum
Í samræmi við stefnu sína um að bjóða alla bílgerðir Jaguar Land Rover með rafmótor frá og með 2020 hefur verksmiðja fyrirtækisins í Castle Bromwich í Bretlandi nú verið undirbúin fyrir breytingarnar því 2021 kemur flaggskip Jaguar, stóri lúxusbíllinn XJ, á markað sem 100% rafbíll, en framleiðslu sama bíls með núverandi drifrás hefur verið hætt.
Jaguar XJ hefur verið á markaði í rúma fimm áratugi og á þeim tíma gengið í gegnum átta kynslóðaskipti samfara stöðugri tækniþróun og breyttum straumum og stefnum í bílgreininni. Þessi rúmgóði og stóri lúxusbíll hefur frá upphafi verið hannaður, þróaður og framleiddur í Bretlandi og fluttur út til meira en 120 landa um allan heim frá árinu 1968. Rafknúin útgáfa XJ mun að stórum hluta byggja á fagurfræðilegri arfleifð forvera síns ásamt rómuðum afköstum og munaði.
Hönnuðir og verkfræðingar nýja bílsins verða þeir sömu og tryggt hafa Jaguar I-Pace helstu verðlaun í bílaheiminum vestanhafs og austan á umliðnum mánuðum. Ákvörðun stjórnenda Jaguar Land Rover um að hrinda í framkvæmd ákvörðun um endurnýjun lífdaga Jaguar XJ mun tryggja áframhaldandi störf þúsunda starfsmanna fyrirtækisins í Bretlandi ásamt því sem ákvörðunin markar nýtt skref í orkuskiptum fyrirtækisins.
Í upphafi þessa árs var tilkynnt um nýja framleiðslulínu fyrir nýja drifrás rafhlöðu og rafmótors (EDU) sem sett verður upp í verksmiðjunni í Midlands auk þess sem verksmiðjan þar verður stækkuð og endurbætt á ýmsan máta.
Ný samsetningarmiðstöð Jaguar Land Rover fyrir rafhlöður, sem tekur til starfa í Hams Hall á næsta ári, mun afkasta 150 þúsund framleiðslueiningum á ári og verður hún sú fullkomnasta sinnar tegundar í Bretlandi.